Með fjölda blóðtappa í heila

Kristoffer Olsson í leik með sænska landsliðinu.
Kristoffer Olsson í leik með sænska landsliðinu. AFP/Vano Shlamov

Sænski knattspyrnumaðurinn Kristoffer Olsson, miðjumaður Midtjylland, greindist með fjölda smárra blóðtappa í báðum heilahvelum.

Olsson hneig niður á heimili sínu og var fluttur á sjúkrahús þann 20. febrúar síðastliðinn og haldið sofandi í öndunarvél.

Í tilkynningu frá Midtjylland, sem íslenski landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason leikur með, segir að líðan Olssons sé stöðug.

Sjaldgæfar bólgur í heila

„Ástand hans má rekja til afar sjaldgæfra bólgna í æðum heilans. Greiningin er í samræmi við þær tilgátur sem sérfræðilæknarnir hafa verið að vinna út frá og meðhöndlað Kristoffer.

Ástand Kristoffers Olssons er nú talið stöðugt og læknarnir halda áfram að sjá smávegis framfarir. Á sama tíma finnst þeim sem meðvitund Kristoffers sé að aukast.

Á næstunni munu læknarnir hægt og bítandi reyna að koma sænska miðjumanninum úr öndunarvél.

En hann er enn á gjörgæslu og ekki hægt að fullyrða neitt um tímalengd meðferðarinnar og endanlega greiningu á þessari stundu,“ sagði í tilkynningu Midtjyllands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert