Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé staðfesti í dag að hann myndi ekki leika áfram með París SG á næsta keppnistímabili og þar með þykir augljóst að hann muni skrifa undir samning við spænska stórveldið Real Madrid.
Samningur hans rennur út í sumar og hann fer því frá frönsku meisturunum án greiðslu.
RMC Sport segir í frétt í kvöld að Mbappé verði launahæsti leikmaður Real Madrid, og eru þar þó margir með ágætis laun. Sagt er að hann verði fyrir ofan bæði Jude Bellingham og Vinicius Junior, sem taldir eru vera launahæstu leikmenn liðsins í dag.
Samkvæmt sama fjölmiðli mun Real Madrid ekki opinbera neitt varðandi samning við Mbappé fyrr en eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Dortmund sem fer fram 1. júní.
Marca hefur áður sagt að Mbappé muni skrifa undir fimm ára samning í Madríd og árslaun hans munin nema um 34 milljónum evra, eða rúmlega fimm milljörðum íslenskra króna. Þar fyrir utan fái hann um 145 milljón evrur fyrir að skrifa undir, en það samsvarar tæpum 22 milljörðum íslenskra króna.
Þó PSG fái ekki krónu fyrir Mbappé getur félagið nýtt fjárhæðirnar sem runnu í vasa hans sem laun til þess að fá fjóra til fimm nýja leikmenn til félagsins í sumar.