Tvö mörk Orra ekki nóg

Orri Steinn Óskarsson hefur skorað 9 mörk fyrir FCK í …
Orri Steinn Óskarsson hefur skorað 9 mörk fyrir FCK í úrvalsdeildinni á tímabilinu. mbl.is/Hákon Pálsson

Orri Steinn Óskarsson skoraði tvívegis fyrir FC Köbenhavn gegn AGF í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en það dugði ekki til og lið hans er úr leik í slagnum um danska meistaratitilinn.

FCK sótti AGF heim til Árósa og þurfti í það minnsta stig til að eiga von um meistaratitilinn í lokaumferðinni.

Orri skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu en forystan varði ekki lengi því Mikael Anderson, félagi hans úr íslenska landsliðinu, lagði up mark fyrir Emil Madsen tveimur mínútum síðar.

Madsen skoraði síðan tvívegis í viðbót fyrir hlé og staðan var orðin 3:1 fyrir AGF. Orri skoraði annað mark sitt og FCK á 79. mínútu, 3:2, en þar við sat og Mikael og samherjar hans fögnuðu sigri.

Í lokaumferðinni munu því Bröndby og Midtjylland heyja einvígi um meistaratitilinn en þau eru bæði með 62 stig og FC Köbenhavn er með 58 stig í þriðja sætinu. FCK mun leika hreinan úrslitaleik um þriðja sætið við Nordsjælland sem er einu stigi neðar.

Þeir Orri og Mikael léku báðir allan leikinn með liðum sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert