Orri dýrasti leikmaður sem FCK hefur selt

Orri Steinn Óskarsson er orðinn leikmaður Real Sociedad.
Orri Steinn Óskarsson er orðinn leikmaður Real Sociedad. Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn Óskarsson, landsliðsmaðurinn ungi í knattspyrnu, er dýrasti leikmaður sem danska félagið FC Köbenhavn hefur selt.

FCK staðfesti í kvöld að Orri hefði verið seldur til spænska félagsins Real Sociedad og íþróttastjóri FCK, Sune Smith-Nielsen, segir á vef danska félagsins að um metsölu sé að ræða.

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum greiðir Real Sociedad um 20 milljónir evra fyrir Orra Stein, eða um þrjá milljarða íslenskra króna.

„Þessi sala vekur upp margar tilfinningar. Annars vegar erum við mjög stoltir af því að hafa eina ferðina enn náð að þróa og selja ungan og hæfileikaríkan leikmann. Á hinn bóginn hefðum við viljað halda Orra aðeins lengur og það er ástæðan fyrir því að við höfnuðum mörgum tilboðum í Orra í sumar," segir Smith-Nielsen á vef FCK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert