Daníel og félagar í annað sætið

Daníel Freyr Kristjánsson í leik með 21-árs landsliðinu.
Daníel Freyr Kristjánsson í leik með 21-árs landsliðinu. Eyþór Árnason

Daníel Freyr Kristjánsson og samherjar hans í Fredericia eru komnir í annað sæti dönsku B-deildarinnar í knattspyrnu eftir öruggan útisigur á Hilleröd í kvöld, 3:0.

Daníel, sem er 19 ára gamall, lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Fredericia en hann er í láni hjá félaginu frá meistaraliðinu Midtjylland.

Fredericia er með 19 stig í öðru sætinu og fór upp fyrir Esbjerg sem er með 18 stig. OB virðist ætla að vera með yfirburði í deildinni og er langefst með 28 stig af 30 mögulegum eftir tíu umferðir.

Í úrvalsdeildinni vann FC Köbenhavn sigur á AaB, 2:0. Rúnar Alex Rúnarsson var varamarkvörður FCK eins og í öðrum leikjum á tímabilinu en Nóel Atli Rúnarsson var ekki með nýliðum AaB vegna meiðsla.

Midtjylland er með 21 stig á toppi úrvalsdeildarinnar, AGF er með 18 stig, FCK 17 og Silkeborg 17 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert