Í bann fyrir að veitast að stuðningsmanni

Sergio Romero í leiknum gegn River Plate.
Sergio Romero í leiknum gegn River Plate. AFP/Luis Robayo

Knattspyrnumarkvörðurinn Sergio Romero er kominn í bann hjá félagsliði sínu Boca Juniors í Argentínu eftir að hann veittist að stuðningsmanni í eftir tap liðsins gegn River Plate í efstu deild argentínska boltans.

Romero var ósáttur við stuðningsmann sem kallaði hann ljótum nöfnum á meðan á leik stóð. Eftir leik veittist hann að stuðningsmanninum. Fyrir vikið hefur félagið sett hann í tveggja leikja bann.

Að lokum þurfti nokkra starfsmenn félagsins og liðsfélaga markvarðarins til að halda aftur af honum. Hann baðst afsökunar á athæfinu og sagðist einfaldlega hafa misst hausinn.

Romero var leikmaður Manchester United á árunum 2015 til 2021, þar sem hann var varamarkvörður David De Gea. Hann hefur leikið 96 landsleiki fyrir Argentínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert