Stuðningsmenn gengu berserksgang

Aleksandar Stanojevic fékk að kenna á því.
Aleksandar Stanojevic fékk að kenna á því. AFP/Andrej Isakovic

Áhangendur serbneska stórliðsins Partizan frá Belgrad tóku tapinu gegn erkifjendunum í Rauðu stjörnunni ekki þegjandi og þjálfari liðsins hlaut áverka á andliti í leikslok.

Leiknum lauk með 4:0-sigri Rauðu Stjörnunnar en stuðningsmenn Partizan eru orðnir þreyttir á að tapa sífellt fyrir nágrönnum sínum. Þetta var þriðja tap Partizan í grannaslagnum í röð og stuðningsmenn brutu glervegg við búningsklefa liðsins.

Þjálfari liðsins, Aleksandar Stanojevic, fékk glerbrot í andlitið og mætti með plástra yfir sárum sínum á blaðamannafund eftir leik.

„Það er engin ástæða til að gera stórmál úr þessu, þeir brutu gler en það gerðist ekkert meira. Engin slagsmál eða átök. Ekkert dramatískt. Ég bið alla stuðningsmenn Partizan afsökunar á því hvernig við töpuðum leiknum,“ sagði þjálfarinn í leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert