Landsliðskonur mætast í Meistaradeildinni

Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Bayern München gegn Arsenal …
Glódís Perla Viggósdóttir í leik með Bayern München gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu. Liðin eru saman í riðli. AFP/Christof Stache

Fjórar íslenskar landsliðskonur leika í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í fótbolta í vetur og tvær þeirra mætast en dregið var í riðlana rétt í þessu í höfuðstöðvum UEFA í Sviss.

Þýskalandsmeistarar Bayern München, með Glódísi Perlu Viggósdóttur sem fyrirliða, eru í riðli með norsku meisturunum Vålerenga en með þeim leikur landsliðsbakvörðurinn Sædís Rún Heiðarsdóttir frá Ólafsvík.

Óhætt er að segja að Vålerenga fái stórleiki því liðið er í riðli með stórveldunum Bayern, Arsenal og Juventus.

Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með Wolfsburg frá Þýskalandi og Amanda Andradóttir leikur með hollensku meisturunum Twente.

Riðlarnir fjórir eru þannig skipaðir:

A-riðill: Lyon (Frakklandi), Wolfsburg (Þýskalandi), Roma (Ítalíu), Galatasaray (Tyrklandi).
B-riðill: Chelsea (Englandi), Real Madrid (Spáni), Twente (Hollandi), Celtic (Skotlandi).
C-riðill: Bayern München (Þýskalandi), Arsenal (Englandi), Juventus (Ítalíu), Vålerenga (Noregi).
D-riðill: Barcelona (Spáni), Manchester City (Englandi), St. Pölten (Austurríki), Hammarby (Svíþjóð).

Riðlakeppnin hefst 8. október og lýkur 18. desember en tvö efstu liðin úr hverjum riðli komast áfram í átta liða úrslit keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert