Ósigraður á toppi deildarinnar

Elías Rafn Ólafsson ver mark Midtjylland.
Elías Rafn Ólafsson ver mark Midtjylland. Ljósmynd/Alex Nicodim

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson og samherjar hans í meistaraliðinu Midtjylland styrktu stöðu sína á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Midtjylland vann þá heimasigur á Viborg, 3:1, og er ósigrað eftir tíu fyrstu umferðirnar með 24 stig, fimm stigum meira en AGF sem er með 19 stig í öðru sæti. Silkeborg og FC Köbenhavn eru bæði með 17 stig og leika síðar í dag.

Elías sneri aftur til Midtjylland í sumar eftir eins árs lánsdvöl hjá Mafra í Portúgal og tók við stöðu aðalmarkvarðar. Hann hefur spilað alla tíu leikina í deildinni og fengið á sig 11 mörk en Midtjylland er jafnframt komið í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.

AaB vann Sönderjyske, 3:0, í nýliðaslag í Álaborg í dag. Nóel Atli Arnórsson er meiddur og var ekki með AaB en Daníel Leó Grétarsson og Kristall Máni Ingason voru í liði Sönderjyske. Kristall fór af velli á 85. mínútu.

AaB er komið með 12 stig í níunda sæti deildarinnar en Sönderjyske er með 8 stig í tíunda sæti af tólf liðum. Lyngby með 6 stig og stigalaust lið Vejle eru fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert