Inter Mílan komst í dag í toppsæti ítölsku A-deildarinnar í fótbolta með afar sannfærandi útisigri á Hellas Verona, 5:0.
Joaquin Correa kom Inter yfir á 17. mínútu leiksins áður en Marcus Thuram skoraði tvívegis á þriggja mínúta kafla. Fyrra markið kom á 22. mínútu og það seinna á 25. mínútu.
Liðið var ekki hætt í fyrri hálfleiknum en Stefan de Vrij skoraði á 31. mínútu og Yann Bisseck bætti við fimmta markinu á 41. mínútu.
Eftir leikinn er Inter með tveggja stiga forystu á Napoli á toppi deildarinnar en Verona er í 12. sæti, þremur stigum frá fallsæti.