Hákon hetjan í Meistaradeildinni

Leikmenn Lille fagna eftir að Hákon Arnar Haraldsson skoraði sigurmark …
Leikmenn Lille fagna eftir að Hákon Arnar Haraldsson skoraði sigurmark liðsins í kvöld. AFP/Denis Charlet

Hákon Arnar Haraldsson kom inn á sem varamaður og skoraði sigurmark Lille mínútu síðar þegar liðið lagði Sturm Graz frá Austurríki að velli, 3:2, í sjöttu umferð deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Frakklandi í kvöld.

Staðan var 2:2 þegar Hákon Arnar kom inn á sem varamaður á 80. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði hann sigurmarkið og sá til þess að Lille er með 13 stig í sjötta sæti deildarinnar og á góðan möguleika á því að komast beint í 16-liða úrslit.

Lille hafði komist í 2:0 í fyrri hálfleik áður en Sturm Graz jafnaði metin með marki undir lok hálfleiks og í upphafi þess síðari.

Griezmann með tvennu

Atlético Madríd frá Spáni lagði Slovan Bratislava frá Slóvakíu, 3:1, þar sem Antoine Griezmann skoraði tvívegis fyrir Madrídinga og Julián Álvarez skoraði eitt mark.

Atlético er í tíunda sæti með tólf stig og Slovan er á botninum án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert