Íslenski bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson mun taka þátt í sínum sjötta
atvinnumannabardaga í blönduðum bardagaíþróttum (e. mixed martial arts) á Adrenalínmótinu í Kaupmannahöfn í kvöld.
Gunnar, sem er aðeins tvítugur að aldri, mun etja kappi
við hinn miklu reyndari brasilíska bardagakappa Iran Mascarenhas, sem er
þrítugur að aldri, og hefur verið þjálfari hjá einum stærsta
bardagaíþróttklúbbi Danmerkur um nokkurra ára skeið.
Andstæðingur Gunnars er því á heimavelli en hópur Íslendinga er mættur til
Danmerkur í bolum sérmerktum Gunnari til að styðja sinn mann enda
mikill áhugi fyrir bardaganum.
Gunnar er ósigraður á sínum atvinnumannaferli í MMA og hefur m.a. sigrað fjóra síðustu andstæðinga sína í fyrstu lotu. Þetta er þó vafalítið erfiðasti
andstæðingur hans til þessa en Mascarenhas er af dönskum fjölmiðlum
talinn mun sigurstranglegri. Gunnar kemur þó vel undirbúinn en hann
dvaldi m.a. í 3 mánuði á Hawaii í vor við æfingar hjá heimsmeistaranum í léttivigt, B.J.Penn.
Sigurvegarinn í bardaganum ávinnur sér rétt til að berjast um Adrenalínbeltið í veltivigt í vetur við núverandi meistara, Norðmanninn Simeon Thoresen.