21 árs Norðmaður stal senunni

Johannes Høsflot Klæbo er aðeins 21 árs.
Johannes Høsflot Klæbo er aðeins 21 árs. AFP

Norðmaðurinn Johannes Høsflot Klæbo er ólympíumeistari í sprettgöngu karla á skíðum, en hann er aðeins 21 árs gamall. Klæbo var langfyrstur þangað til í blálokin, en hann slakaði vel á rétt áður en hann kom í mark, er hann vissi að gullið væri í húsi. Federico Pellegrino frá Ítalíu varð annar og Rússinn Alexander Bolshunov í þriðja sæti. Klæbo er yngsti maðurinn í sögu Ólympíuleikanna til að vinna sprettgönguna.

Þýskaland er með flest gullverðlaun á leikunum, sem fram fara í Pyeongchang í Suður-Kór­eu, eða fimm stykki eftir að Natalie Geisenberger hafði betur gegn löndu sinni, Dajana Eitbergar, í hörkuspennandi sleðakeppni og varði í leiðinni ólympíutitil sinn. Alex Gough frá Kanada varð þriðja. Holland kemur á eftir Þýskalandi með fern gullverðlaun, en Kjeld Nuis kom fyrstur í mark í 1.500 metra skautahlaupi karla í dag. Hann kom í mark á tímanum 1:44,01. Landi hans, Patrick Roest, varð annar og Kim Min Seok frá Suður-Kóreu varð þriðji.

Kaitlyn Lawes og John Morris, sem skipa blandaða kanadíska liðið í krullu urðu í dag ólympíumeistarar eftir sigur á Sviss í úrslitaleik, 10:3. Kanadíska liðið hafði nokkra yfirburði á leikunum. Í blandaða flokknum keppa karlar og konur saman.

Í 500 metra skautahlaupi kvenna kom Arianna Fontana frá Ítalíu fyrst í mark á 42,569 sekúndum. Yara van Kerkhof frá Hollandi varð önnur og Kim Boutin frá Kanada tók brons.

Svíþjóð er komin með tvenn gullverðlaun eftir að Stina Nilson kom fyrst í mark í sprettgöngu kvenna á skíðum. Hún kom í mark á 3:03,84 mínútum, þremur sekúndum á undan Maiken Falla frá Noregi. Yulia Belorukova frá Rússlandi tók bronsið.

Kjeld Nuis er ólympíumeistari.
Kjeld Nuis er ólympíumeistari. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert