Hlynur og Sindri á lokamótið - Íslandsmet Hlyns

Hlynur Andrésson keppir fyrir Eastern Michigan skólann.
Hlynur Andrésson keppir fyrir Eastern Michigan skólann.

Það verða þrír íslenskir keppendur á lokamóti NCAA, bandarísku háskólaíþróttanna, í frjálsum íþróttum sem fram fer í Eugene í Oregon í byrjun júní.

Hlynur Andrésson tryggði sér farseðilinn um helgina þegar hann setti nýtt Íslandsmet í 3.000 metra hindrunarhlaupi á austur-úrtökumótinu. Hlynur endaði í 4. sæti á 8:44,11 mínútum, aðeins fjórum sekúndum frá lágmarki fyrir EM í Berlín í ágúst. Fyrra Íslandsmetið átti Sveinn Margeirsson úr UMSS en það var 8:46,20 mínútur frá árinu 2003. Hlynur á nú Íslandsmetin í 5.000 og 10.000 metra hlaupi, og 3.000 metra hindrunarhlaupi.

Spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson bættist í hópinn í gær þegar hann vann úrtökumót vesturdeildarinnar með nokkrum yfirburðum, en hann kastaði lengst 77,87 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson og Vigdís Jónsdóttir kepptu einnig á mótinu í gær. Kolbeinn var í boðhlaupssveit í 4x100 metra hlaupi en sveitin gerði ógilt, og Vigdís kastaði 57,87 metra í sleggjukasti og endaði í 24. sæti af 48 keppendum. Tólf efstu komust á lokamót NCAA.

Auk Sindra og Hlyns hefur sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson tryggt sér farseðilinn á lokamót NCAA.

Sindri Hrafn Guðmundsson í bikarkeppni í Kaplakrika síðasta sumar.
Sindri Hrafn Guðmundsson í bikarkeppni í Kaplakrika síðasta sumar. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert