Hilmar hafnaði í ellefta sæti

Hilmar Örn Jónsson var talsvert frá sínu besta í kvöld.
Hilmar Örn Jónsson var talsvert frá sínu besta í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Hilmar Örn Jónsson hafnaði í ellefta sæti í sleggjukasti á bandaríska háskólamótinu í frjálsum íþróttum í kvöld en mótið fram fer í Eugene í Oregonríki á vesturströnd Bandaríkjanna og sleggjukast karla var fyrsta greinin.

Fyrsta kast Hilmars var ógilt en hans annað kast endaði í 69,94 metrum. Þriðja kast hans var einnig ógilt en 69,94 metrar dugðu ekki til þess að koma honum áfram í þrjár síðustu umferðirnar í keppninni. Aðeins munaði 33 sentimetrum en níu efstu héldu áfram keppni. Hilmar var nokkuð frá sínu besta sem eru 72,38 metrar. Alls komust 24 bestu kastararnir úr bandarísku háskólunum á mótið.

Hilmar er ekki eini Íslendingurinn sem tekur þátt í bandaríska háskólamótinu sem er á meðal stærstu frjálsíþróttaviðburða í Bandaríkjunum á hverju ári en Hlynur Andrésson tekur þátt í 3.000 metra hindrunarhlaupi á miðnætti að íslenskum tíma og þá mun Sindri Hrafn Guðmundsson keppa í spjótkasti klukkan kortér í eitt að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert