700 leggja af stað í fjallahjólamóti í kvöld

Frá Bláalónsþrautinni. Hjólaðir eru 60 kílómetrar frá Völlunum í Hafnarfirði …
Frá Bláalónsþrautinni. Hjólaðir eru 60 kílómetrar frá Völlunum í Hafnarfirði yfir í Bláa lónið.

Um 700 manns munu leggja af stað í Bláalónsþrautinni á áttunda tímanum í kvöld þegar mótið hefst í 22. skipti. Um er að ræða fjölmennasta fjallahjólaviðburð ársins, en hjólað er frá Ásvallalaug í Hafnarfirði um Krýsuvík og að Bláa lóninu í Svartsengi.

Sigurvegari í karlaflokki í fyrra, Þjóðverjinn Louis Wolf, ætlar að reyna að verja titilinn í ár, en búast má við harðri keppni frá Ingvari Ómarssyni, núverandi Íslandsmeistara í fjallahjólreiðum, og Hafsteini Ægi Geirssyni, margföldum sigurvegara keppninnar. Ingvar hefur aldrei unnið keppnina, en oft verið í öðru eða þriðja sæti og má því búast við að hann mæti hungraður til leiks.

Anna Kristín Sigurpálsdóttir, sigurvegari í kvennaflokki frá því í fyrra, er einnig skráð til leiks auk fleiri sterkum hjólakonum.

Atla Sigurði Kristjánssyni, sem er í mótsstjórn, segir í samtali við mbl.is að fyrstu þrír kílómetrar keppninnar verði hjólaðir í lögreglufylgd frá sundlauginni og að hesthúsahverfinu í Hafnarfirði. Þar verði hjólurum sleppt á fullt skrið og farið meðfram Hvaleyrarvatni og út á Krýsuvíkurveg. Þaðan er hjólað upp að námum og beygt inn á Vigdísarvallaveg sem er á möl. Þaðan er komið inn á Suðurstrandarveg og haldið í gegnum Grindavík og að Bláa lóninu. Samtals er um að ræða 60 kílómetra leið.

Sem fyrr segir er þetta í 22. Skipti sem keppnin fer fram, en Atli segir að fyrsta árið hafi aðeins sex eða sjö manns hjólað þrautina. Árið eftir hafi þeir verið 10. Með tíð og tíma stækkaði mótið og fyrir þremur árum hafi um 1.000 manns tekið þátt. Þá hafi verið ákveðið að setja fjöldatakmörk við 700 keppendur svo allir kæmust ofan í lónið eftir keppnina.

Um 100 af þeim sem taka þátt eru skráðir í Íslandsmótið og byrja þeir fremstir. Þá er fjöldi fyrirtækjaliða og áhugamanna sem eru í keppni við sjálfan sig eða vilja taka þátt ár eftir ár.

Atli segir að búast megi við erfiðum aðstæðum í dag enda sé bæði blautt og örlítið kalt vegna þess. Síðast hafi verið slæmt veður fyrir sex árum síðan og var þá nokkuð síðri tími en þegar sól og blíða er. Hann segir brautina þó vera mjög góða og einstaklingar frá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur hafi farið um brautina í morgun og merkt hana.

Keppnin hefst á slaginu 19:40 í kvöld og búast má við miklum fjölda hjólreiðamanna á Völlunum á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert