Endurkoman hafin hjá Djokovic

Serbinn Novak Djokovic fagnar titlinum í dag.
Serbinn Novak Djokovic fagnar titlinum í dag. AFP

Serbinn Novak Djokovic stóð uppi sem sigurvegari á Wimbledon-mótinu í tennis í fjórða skipti eftir öruggan sigur á Suður-Afríkumanninum Kevin Anderson. Djokovic vann leikinn 3:0; 6:2, 6:2 og 7:6 (7:3 í upphækkun).

Um fyrsta titil Serbans er að ræða síðan árið 2016 er hann vann opna franska meistaramótið.

Djokovic er jafnan talinn með betri tennisspilurum sögunnar, var í 223 vikur í röð í efsta sæti styrkleikalistans og vann í Frakklandi árið 2016 eina mótið sem hann hann átti eftir að vinna Eftir það fór að halla undan fæti, Serbinn sagðist eiga í erfiðleikum í einkalífinu og átti einnig við meiðsli að stríða.

„Ég efaðist mörgum sinnum. Ég var ekki viss um það hvort ég gæti keppt aftur á þessu getustigi,“ sagði Djokovic í dag eftir sigurinn en hann vann fyrst á Wimbledon-mótinu árið 2011, og svo tvö ár í röð, 2014 og 2015.

„Það er ekki hægt að hugsa sér betri stað fyrir endurkomu. Þetta er heilagur staður  í tennisheiminum. Þetta er mjög sérstakt,“ sagði Djokovic sem hefur nú unnið 13 risatitla í tennis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert