Alþjóðalyfjaeftirlitið afléttir banni á Rússa

Craig Reedie forseti WADA áður en hann ræddi við fjölmiðla …
Craig Reedie forseti WADA áður en hann ræddi við fjölmiðla á Seychelles-eyjum dag. AFP

Framkvæmdanefnd alþjóðalyfjaeftirlitsins í íþróttaheiminum (WADA) hefur tekið umdeilda ákvörðun um að aflétta banni á hendur rússneska lyfjaeftirlitinu. WADA mun hafa sannfærst af málflutningi rússneska íþróttamálaráðuneytisins, sem hafi að þeirra mati viðurkennt með fullnægjandi hætti að mistök hafi átt sér stað.

Lögmaður rússneska uppljóstrarans, Grigory Rodcenkov, sem átti stóran hlut í því að koma upp um kerfisbundin svik rússneskra íþróttamálayfirvalda, segir að ákvörðun WADA séu „svik“ við þá íþróttamenn sem ekki nota ólögleg efni til þess að bæta frammistöðu sína.

„Bandaríkin eru að sóa peningum með því að halda áfram að styrkja WADA,“ sagði lögmaður Rodcenkov og bætti við að það væri stofnuninni augljóslega um megn að takast á við lyfjamisnotkun Rússa.

AFP

Rússneskir íþróttamenn hafa verið útilokaðir frá ýmsum alþjóðlegum keppnum sem heyra undir eftirlit WADA undanfarin þrjú ár, eftir að flett var ofan af gríðarlega umfangsmikilli lyfjamisnotkun rússneskra íþróttamanna. Nú geta þeir snúið aftur og keppt undir eigin fána.

Forseti WADA, Sir Craig Reedie, segir að aflétting bannsins sé háð ströngum skilyrðum og að ákvörðunin feli meðal annars í sér að Rússar verði að veita WADA aðgang að sýnum og gögnum frá rannsóknarstofu sinni í Moskvu í náinni framtíð.

Yfirmaður bandaríska lyfjaeftirlitsins , Travis Tygard, segir að ákvörðun WADA um að viðurkenna á ný rannsóknir rússneska lyfjaeftirlitsins á eigin íþróttamönnum sé „hrikalegt högg“ fyrir þá íþróttamenn sem ekki noti frammistöðubætandi efni.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert