Hörð keppni í Bikiníbotnum

Magnús Sigurðsson flýgur í mark á Kubbnum.
Magnús Sigurðsson flýgur í mark á Kubbnum. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir

Um síðustu helgi voru hundruð Íslendinga staddir á akstursíþróttasvæðinu að Bikiníbotnum, sem er nærri borginni Dyersburg í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum. Þar tóku tíu íslensk lið þátt í torfærukeppni, auk tveggja liða frá Bandaríkjunum.

Þetta er þriðja árið í röð sem keppt er um Ameríkubikarinn í torfæru og í ár var það Eyjamaðurinn Magnús Sigurðsson sem stóð uppi sem sigurvegari á tryllitæki sínu, sem ber nafnið Kubbur.

„Þetta var bara meiri háttar, þetta var bara æðislegt,“ segir Magnús í samtali við mbl.is, en hann er nýlega kominn aftur til landsins eftir góða dvöl í Bandaríkjunum. Keyrðar voru tólf brautir í heildina, sex á laugardag og sex á sunnudag.

„Mér gekk svakalega vel fyrri daginn og vann, en það voru allir bílar svakalega jafnir. Seinni daginn er ég í öðru sæti alveg fram á síðustu braut og svo kemst ég ekki yfir vatnið og þá datt ég niður í sjötta sæti,“ segir Magnús, en samanlagður árangur hans dagana tvo dugði þó til sigurs, með minnsta mögulega mun.

Hér að ofan má sjá ótrúleg tilþrif Magnúsar á fyrri keppnisdegi, er hann stökk inn í endamark einnar brautarinnar og endaði þar á hlið.

Mikill hiti

Brekkurnar í Bikiníbotnum voru ósléttar eftir miklar rigningar í aðdraganda keppnishelgarinnar og segir Magnús að það hafi verið skrítið að keyra í þeim og að bílarnir hafi skoppað töluvert. Þá var gríðarlegur hiti er keppnin fór fram, eða um 40°C og aðstæður því á allan hátt ólíkar því sem íslensku ökumennirnir áttu að venjast, en þó prýðilegar.

„Maður reyndi að hreyfa sig sem minnst inni í bílnum, vera í skjóli og standi og svo drakk maður bara eins mikið af vatni og maður gat. Maður þarf nú stundum að fara í aukaföt til að keyra á Íslandi en þarna var maður bara í gallanum og engu öðru,“ segir Magnús, sem var að keppa í þriðja sinn á mótinu í Bikiníbotnum.

Bílarnir orðnir áreiðanlegri

Keppni Íslendinganna var gríðarlega jöfn um helgina og segir Magnús að hún hafi verið það í allt sumar í keppni á Íslandsmótinu í torfæru. Aðalástæðan fyrir því er að hans sögn að bílarnir séu betur byggðir og sjaldgæfara sé að menn þurfi að hætta keppni eða missa af brautum vegna bilana.

„Núna mæta allir bílar og eru alltaf klárir í brautina. Það eru allir komnir með innspýtingar og allir komnir með öxla og millikassa og sjálfskiptingar sem halda og það er mjög sjaldgæft að menn detti út vegna bilana,“ segir Magnús.

Magnús í hitanum í Bikiníbotnum.
Magnús í hitanum í Bikiníbotnum. Ljósmynd/Guðbjörg Ólafsdóttir

En þá er líka gott að vera með öflugt teymi viðgerðarmanna með sér, sem geta lagað bílinn á svipstundu á milli brauta. Eitt dæmi um það úr keppni helgarinnar segir Magnús vera þegar milliheddið í bifreið Þórs Þormars Pálssonar hreinlega sprakk úr bílnum og skaust 20-30 metra upp í loftið og hæfði flygildi óheppins myndatökumanns.

„Þeir mættu í næstu braut, einhverjum þremur tímum seinna,“ segir Magnús og bætir við að þar hafi Þór svo sett heimsmet í fleytingu á vatni, er hann ók torfærubílnum á 99,7 kílómetra hraða á yfirborði vatnsins. Þetta met mun hafa verið skrásett af heimsmetabók Guinness, sem var með fulltrúa á staðnum. „Það er gríðarlega vel gert,“ segir Magnús, sem sjálfur var með 27 manna viðgerðamannateymi með sér ytra sem reyndist honum afar vel.

Búið að vera of tímafrekt

Magnús er búinn að vera að keppa í torfæru síðan árið 2010 en ætlar núna að láta staðar numið, alla vega í bili. Það var ákveðið áður en haldið var til Bandaríkjanna og því sætt að vinna Ameríkubikarinn.

Aðspurður segir Magnús að þetta helsta áhugamál hans hafi tekið of mikinn tíma frá honum, en sjálfur starfar hann sem sjómaður.

„Þetta er búið að vera mjög tímafrekt en reyndar alveg svakalega gaman. Torfæran er búin að þróast alveg svakalega flott á þessu tímabili sem ég hef verið í þessu,“ segir Magnús og vísar þá til þess að bílarnir séu orðnir betri og keppnirnar jafnari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert