Framkvæmdastjóri FIBA lést í Argentínu

Patrick Baumann.
Patrick Baumann.

Patrick Baumann, framkvæmdastjóri Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA, og nefndarmaður í Alþjóðaólympíunefndinni, lést í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, í morgun en þar var hann viðstaddur Ólympíuleika æskunnar.

Baumann var aðeins 51 árs gamall en dánarorsök er sögð vera hjartaáfall. Alþjóðaólympíunefndin, IOC, staðfesti andlát hans með fréttatilkynningu fyrir stundu. Tilkynnt hefur verið að flaggað verði í hálfa stöng á leikunum í Buenos Aires næstu þrjá daga, þar verði minningarstund um Baumann, og flaggað hafi verið í hálfa stöng í höfuðstöðvum FIBA og IOC.

Baumann, sem var frá Sviss, var áður körfuboltamaður, síðan þjálfari og dómari í íþróttinni en hefur starfað hjá FIBA frá 1994 þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri frá 2002. Fimm árum síðar tók hann sæti í Alþjóðaólympíunefndinni. Hann hefur verið einhver allra áhrifamesti leiðtogi körfuboltaíþróttarinnar undanfarna tvo áratugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert