Get hlaupið enn hraðar

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fagnar á verðlaunapallinum.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fagnar á verðlaunapallinum. Ljósmynd/ÍSÍ

„Ég var ekkert búin að hugsa út í möguleikana mína fyrr en ég sá keppendalistann. Þegar ég sá hann þá vissi ég að ég ætti von um að enda á verðlaunapalli, og eftir fyrra hlaupið var ég viss um að ég myndi vinna þetta,“ segir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir við Morgunblaðið.

Þökk sé Guðbjörgu Jónu mátti í fyrrakvöld í fyrsta sinn heyra íslenska þjóðsönginn óma á Ólympíuleikum. Vissulega var um að ræða Ólympíuleika ungmenna, en þessi 16 ára ÍR-ingur getur haldið afar stoltur heimleiðis til Íslands frá Argentínu. Guðbjörg Jóna vann gullverðlaunin í 200 metra hlaupi, og stóðst pressuna sem fylgdi frekar óvenjulegu keppnisfyrirkomulagi þar sem samanlagður árangur í tveimur umferðum gilti til úrslita. Guðbjörg Jóna var með ágætt forskot eftir fyrri umferðina, þar sem hún bætti Íslandsmetið. Hún bætti metið í þriðja sinn á árinu í seinni umferðinni þar sem hún náði næstbesta tíma allra, og kórónaði þar með magnað ár þar sem gull og brons í 100 og 200 metra hlaupi á EM U18 ára standa einnig upp úr.

„Venjulega er ég ekkert stressuð fyrir hlaup og hef bara gaman af þessu, en núna fann ég stress og varð máttlaus í fótunum. Þetta er farið um leið og maður kemur í mark; maður finnur gleðina og spyr sig af hverju maður hafi eiginlega verið stressaður,“ segir Guðbjörg.

„Það var gott fyrir mig að hafa þetta fyrirkomulag, því í mínum riðli í fyrra hlaupinu var vindurinn fínn og ég náði góðum tíma. Hinar stelpurnar náðu ekki góðum tíma þar, svo samanlagður tími minn var miklu betri. Þetta fyrirkomulag er svolítið ósanngjarnt og eðlilegra væri að hafa hefðbundið keppnisfyrirkomulag, þó að það sé gaman að prófa eitthvað nýtt. En það var mjög gaman að ná líka svona góðum tíma í seinna hlaupinu, bæta sig svona mikið þó að ég ætti ekki góða byrjun. Ég get hlaupið enn hraðar,“ bætir hún við. Það rímar vel við orð Brynjars Gunnarssonar, þjálfara hennar, sem rætt er við á mbl.is.

Ólympíuleikar ungmenna eru frekar nýir af nálinni en fyrst var keppt í þeim árið 2010, og er keppt á fjögurra ára fresti. Fyrirkomulag þeirra er mjög líkt hinum hefðbundnu Ólympíuleikum og um 4.000 keppendur keppa í ýmsum greinum:

Sjá allt viðtalið við Guðbjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert