Okkur langar mikið í gullið

Frá æfingu kvennalandsliðsins í gærmorgun í keppnishöllinni. Ásta Þyri Emilsdóttir …
Frá æfingu kvennalandsliðsins í gærmorgun í keppnishöllinni. Ásta Þyri Emilsdóttir einn þjálfara liðsins er þriðja frá vinstri. Ljósmynd/Kristinn Arason

Nokkrar breytingar hafa orðið á kvennalandsliðinu í hópfimleikum síðan Evrópumótið var haldið í Slóveníu fyrir tveimur árum. Þá hafnaði íslenska liðið í öðru sæti á eftir Svíum sem voru með áberandi besta liðið. Reiknað er með að baráttan um gullið í kvennaflokki á mótinu í Portúgal standi aftur á milli Svíþjóðar og Íslands, gangi allt eftir og ekkert óvænt komi upp til dæmis í undankeppninni sem fram fer í kvöld.

„Kjarninn í liðinu er sá sami og fyrir tveimur árum,“ sagði Ásta Þyri Emilsdóttir, ein þjálfara kvennalandsliðsins í samtali við mbl.is.  Inn í liðið hafa komið Tinna Ólafsdóttir, Hekla Mist Valgeirsdóttir, Ásta Kristinsdóttir og Karitas Inga Jónsdóttir. Þær voru allar í sigursveit Íslands í stúlknaflokki á EM fyrir tveimur árum. Til viðbótar er margfaldur Íslandsmeistari í áhaldafimleikum í kvennalandsliðinu að þessu sinni, Norma Dögg Róbertsdóttir. Norma Dögg var í blönduðu liði fullorðinna á EM fyrir tveimur árum en þá hafði hún nokkru áður söðlað um og skipt yfir í hópfimleika eftir að hafa verið í áhaldafimleikum árum saman.

„Okkur langar mikið í gullið,“ sagði Ásta Þyri og dregur ekki dul á drauma sína og íslenska liðsins sem vann gullið 2010 og 2012. „Eftir silfurverðlaun á tveimur síðustu Evrópumótum erum við orðnar langeygar eftir gullinu. Það er líka leiðinlegt að sjá Svíana vinna gullið eins oft og við höfum verið í baráttu við þá,“ sagði Ásta Þyri með glott á vör en bætir svo við:

Íslenska liðið er á flottum stað um þessar mundir við getum vel staðið á toppnum á laugardaginn,“ sagði Ásta Þyri enn fremur og ljóst er hvert hugur keppenda og þjálfara stefnir á EM að þessu sinni.

 „Við höfum haldið áfram að  styrkja okkur í dansi og á fiberdýnunni en minni þróun orðið í trampólinstökkunum enda höfum við verið í allra fremstu röð þar og nánast vart hægt að gera mikið erfiðari stökk. Næstu skref á trampólíninu eru kannski að fara út í svipuð stökk og strákar eru að gera. Í dýnustökkum erum við hins vegar svo gott sem komin á par við karlaflokkinn og ég tel víst að það séu fá kvennalið í Evrópu sem gera eins erfið stökk og kvennalandsliðið okkar gerir um þessar mundir. Fyrir vikið verður spennandi að fylgjast með hvernig á eftir að ganga á EM að þessu sinni.

Það er mjög gott jafnvægi í hópnum að þessu sinni. Breiddin er meiri en stundum áður þegar mikið hefur mætt á færri einstaklingum. Við höfum sloppið nokkuð vel við meiðsli. Ein er þó að glíma við eitthvað en aðrar eru heilar og fínar. Það er mikill lúxus að vera ekki með fleiri meiddar. Við getum ekki æft mikið meira og liðsmenn eru fullir eftirvæntingar að hefja keppni,“ sagði Ásta Þyri Emilsdóttir, einn þriggja þjálfara kvennalandsliðsins í hópfimleikum. Hinir tveir þjálfararnir eru Bjarni Gíslason og Karen Sif Viktorsdóttir sem einnig eru hokin reynslu af keppni og þjálfun í hópfimleikum og hafa tekið þátt í mörgum stórmótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert