Sara er sjöunda konan

Sara Björk Gunnarsdóttir, íþróttamaður ársins 2018, og Sigríður Sigurðardóttir sem …
Sara Björk Gunnarsdóttir, íþróttamaður ársins 2018, og Sigríður Sigurðardóttir sem fékk titilinn fyrst kvenna árið 1964 að kjörinu loknu í kvöld. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Sara Björk Gunnarsdóttir er sjöunda konan sem er kjörin íþróttamaður ársins, á þeim 63 árum sem Samtök íþróttafréttamanna hafa staðið að kjörinu, og jafnframt sú þriðja á síðustu fjórum árum.

Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona varð fyrst kvenna til að vera kjörin árið 1964, átta árum eftir að kjörið fór fyrst fram. Hún var fyrirliði og lykilmaður kvennalandsliðsins sem varð Norðurlandameistari.

Ragnheiður Runólfsdóttir sundkona varð önnur árið 1991. Hún setti sjö Íslandsmet á árinu, vann fimm gull og tvö silfur á Smáþjóðaleikunum og varð í 7. og 9. sæti í bringusundsgreinunum á Evrópumótinu í Aþenu.

Vala Flosadóttir stangarstökkvari varð sú þriðja árið 2000. Hún hlaut bronsverðlaun í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney og er eina íslenska konan sem hefur unnið til verðlauna á leikunum frá upphafi.

Margrét Lára Viðarsdóttir knattspyrnukona varð sú fjórða árið 2007. Hún setti nýtt markamet með íslenska landsliðinu, skoraði sigurmörk gegn Frakklandi og Kína, og fyrir Val gerði hún 72 mörk á árinu, þar af 38 á Íslandsmótinu sem var nýtt markamet.

Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona varð sú fimmta árið 2015. Hún fékk tvenn bronsverðlaun á EM í 25 metra laug, komst í átta manna úrslit á HM, setti fjölda Íslandsmeta og bætti Norðurlandametið í 200 m baksundi fjórum sinnum á árinu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kylfingur varð sú sjötta árið 2017. Hún lék þá fyrst Íslendinga á LPGA, sterkustu mótaröð heims í kvennaflokki, tryggði sér áframhaldandi keppnisrétt þar og komst á lokamót mótaraðarinnar. Hún náði best 4. sæti á LPGA-móti í Indianapolis, keppti fyrst Íslendinga á risamóti í golfi, og var valin í úrvalslið Evrópu fyrir Drottningamótið í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert