Brady sá allra besti eftir stigalægsta leik sögunnar

Leikmenn New England fagna í nótt.
Leikmenn New England fagna í nótt. AFP

New England Patriots vann Los Angeles Rams í Ofurskálarleiknum (Super Bowl), úrslitaleik bandarísku NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta, 13:3 á Mercedez-Benz-leikvanginum í Atlanta og er Tom Brady, leikstjórnandi liðsins, orðinn sá sigursælasti frá upphafi en þetta var hans sjötti NFL-meistaratitill.

Það var ansi fátt um fína drætti í nótt en aldrei hefur minna verið skorað í leiknum um Ofurskálina en áður hafði Miami Dolphins unnið 14:7-sigur á Washington Redskins árið 1973. New England skoraði vallarmark í öðrum leikhluta áður en Los Angeles jafnaði metin í þeim þriðja en fyrsta og eina snertimark leiksins lét bíða eftir sér þar til í fjórða og síðasta leikhlutanum.

Um miðjan fjórða leikhluta skoraði nýliðinn Sony Michel snertimark og í síðustu sókn Los Angeles koðnaði Jared Goff niður og kastaði boltanum illa frá sér, beint í fangið á Stephon Gilmore, varnarmanni New England, og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Tom Brady og félaga sem bættu við vallarmarki undir lok leiks.

Tom Brady hefur þar með unnið Ofurskálarleikinn sex sinnum, oftar en nokkur annar, en hann var jafn Charles Haley, sem vann fimm titla sinnum á sínum tíma. Maður leiksins var aftur á móti útherjinn Julian Edelman sem greip tíu sendingar frá Brady og hljóp alls um 130 metra fyrir New England en hann hélt sóknarleik liðsins lifandi lengst af á meðan vörnin stóð pliktina vel. New England hefur unnið titilinn sex sinnum, jafn oft og Pittsburgh Steelers.

Tom Brady vann í sjötta sinn.
Tom Brady vann í sjötta sinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert