KA bikarmeistari i fyrsta skipti

Leikmenn KA fagna bikarmeistaratitlinum í Digranesinu í dag.
Leikmenn KA fagna bikarmeistaratitlinum í Digranesinu í dag. mbl.is/Hari

KA er bikarmeistari kvenna í blaki í fyrsta skipti eftir 3:1-sigur á HK í úrslitaleik Kjörísbikarsins í Digranesi í dag. KA er deildameistari eftir harða baráttu við HK og munaði aðeins einu stigi á liðunum í Mizuno-deildinni í vetur og mátti því búast við spennandi leik. 

HK byrjaði vel og komst í 7:3 í fyrstu hrinunni, en þá kom gott svar frá KA sem jafnaði í 9:9 og komst svo í 12:9. KA komst í kjölfarið í 19:13. Í stöðunni 21:14 kom glæsilegur kafli hjá HK-konum og tókst þeim að minnka muninn í 21:18 og loks jafna í 24:24, þar sem KA réð illa við flottar uppgjafir HK. Það dugði hins vegar ekki til að lokum því KA vann hrinuna 29:27 og komst í 1:0.

Aftur byrjaði HK vel í annarri hrinu og komst í 15:7. Þá tók Miguel Castrillo, þjálfari KA, leikhlé. KA minnkaði muninn í 17:10. Þá komu sex stig í röð hjá HK sem fór langt með að tryggja sigurinn í hrinunni. Að lokum fór hrinan 25:12, HK í vil, og var leikurinn því jafn, 1:1.

Strax í byrjun þriðju hrinu þurfti Matthildur Einarsdóttir í liði HK að fara af velli vegna meiðsla. Matthildur er afar góður leikmaður og hafði fjarvera hennar áhrif á leikinn. KA komst í 6:1 í byrjun hrinunnar. Norðankonur héldu áfram að bæta í forskotið á næstu mínútum og var það mest tíu stig, 19:9. Svo fór að KA vann hrinuna sannfærandi, 25:16, og gat því tryggt sér bikarmeistaratitilinn með sigri í fjórðu hrinu. 

KA var sterkari aðilinn í fjórðu hrinu og komst í 9:4 og svo 13:7. HK reyndi hvað það gat til að minnka muninn, en KA var með svör við öllu sem HK reyndi. KA komst í 20:13 og vann að lokum hrinuna 25:19 og leikinn 3:1. 

Helena Kristín Gunnarsdóttir skoraði 17 stig fyrir KA og Hulda Elma Eysteinsdóttir 12. Elísabet Einarsdóttir var stigahæst hjá HK með 23 stig og Hjördís Eiríksdóttir skoraði 13. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert