Með súrefniskúta á bekknum á HM

Vladimar Kolek þjálfari og Jussi Sipponen aðstoðarþjálfari á æfingu íslenska …
Vladimar Kolek þjálfari og Jussi Sipponen aðstoðarþjálfari á æfingu íslenska landsliðsins í Mexíkóborg í dag. Ljósmynd/Bjarni

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí er nú statt í Mexíkóborg þar sem það tekur þátt í B-riðli 2. deildar á heimsmeistaramóti karla. Fyrsti leikur liðsins er á morgun, sunnudag, og hefst kl. 18.00 að íslenskum tíma.

Mótið fer fram í Santa Fe skautahöllinni en hún er staðsett í einni stærstu og flottustu verslunarmiðstöð borgarinnar.

Aðalþjálfari liðsins Vladimar Kolek, sem stýrir íslenska liðinu á öðru heimsmeistaramóti sínu, er tékkneskur en hefur búið undanfarna áratugi í Finnlandi. Hann hefur gert íshokkí að ævistarfi sínu bæði sem leikmaður í Tékklandi, Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi og svo sem þjálfari og íþróttastjóri í Finnlandi undanfarin ár.

Spurður út í feril sinn segir Vlado, eins og hann er jafnan kallaður: „Íshokkí er mín ástríða, það sem ég elska að gera og ég er mjög ánægður að geta unnið við það“.

Á HM í fyrir ári keppti landsliðið í Hollandi, en þá í A. riðli 2. deildar, en var féll niður um riðil eftir að hafa tapað öllum leikjunum. „Við spiluðum ágætlega á mótinu í fyrra, flestir leikirnir voru jafnir en það var mikið brottfall úr leikmannahópnum fyrir mótið sem gerði okkur erfitt fyrir“ segir Vlado.

Aðspurður út í breyttar áherslur í ár segir hann: „Við erum með svipaðar áherslur í okkar leik með smávægilegum breytingum en aðalbreytingin er að við erum með fullmannað lið og marga unga stráka sem eru reynslunni ríkari. Liðið lítur mjög vel út þrátt fyrir að við misstum nokkra leikmenn út vegna meiðsla rétt fyrir mót. En við þurfum auðvitað að sanna okkur út á ísnum“.

Mexíkóborg liggur hátt, í 2.240 metra hæð yfir sjávarmáli. Til samanburðar er hæsta fjall Íslands, Hvannadalshnjúkur 2.110 metrar. „Við höfðum smá áhyggjur af hæðinni fyrir mótið en samkvæmt leikmönnunum eru þeir að aðlagast hratt og vel. Þeir fundu mikinn mun á annari æfingu í dag svo ég held þetta verði ekki vandamál. Við þurfum auðvitað að aðlaga okkur að þessu í leikjunum, styttri skiptingar, hámark 35 sekúndur svo þeir fái nóg súrefni í blóðið. Svo fáum við súrefniskúta á bekkina fyrir leikmenn milli skiptinga.“

En hver er lykillinn að góðum árangri á þessu móti? „Vörnin, góð og þétt vörn. Nú þegar við spilum á ís sem er í NHL-stærð, mjórri og lengri, verður meira um fráköst, fleiri skot. Meira um einn á einn, fleiri árekstrar - við þurfum að vera undir það búnir."

Spurður út í andstæðinga Íslands á mótinu, Ísrael, Nýja-Sjáland, Mexíkó og Norður-Kóreu, svarar Vlad: „Ísrael og Nýja-Sjáland eru með sterk lið og verða, að ég tel, erfiðustu andstæðingarnir. Við þurfum að einbeita okkur að okkar leik og allir þurfa að vera tilbúnir á morgun í fyrsta leik gegn Ísrael.“

„Úrslitin í fyrra voru mikil vonbrigði en markmiðið í ár auðvitað að vinna mótið, við getum ekki sett okkur lægra markmið en það“ bætir Vlado við að lokum.

Fyrsti leikur Íslands gegn Ísrael hefst kl. 18 að íslenskum tíma á morgun, páskadag, og er hægt að horfa á hann í beinu streymi hér:https://www.iihf.com/en/events/2019/wmiib

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert