Fyrsti Íslandsmeistaratitill KA

Leikmenn KA fagna fyrsta Íslandsmeistaratitili félagsins á Akureyri í dag.
Leikmenn KA fagna fyrsta Íslandsmeistaratitili félagsins á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og HK mættust í dag í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Hvort lið hafði unnið tvo leiki í úrslitaeinvíginu en oddaleikurinn fór fram á Akureyri þar sem KA hafði unnið deildina fyrr í vetur.

Eins og í öllum leikjum liðanna í vetur var hart barist. Öflug trommusveit var mætt úr Kópavogi og fengu liðin svakalegan stuðning frá áhorfendum í brjáluðum hávaða og stemningu.

Áður hafði KA unnið tvo fyrstu leiki einvígisins 3:0 og 3:1. HK-konur svöruðu með tveimur 3:1 sigrum. KA var miklu sterkara liðið í dag og vann örugglaga 3:0. Hrinurnar fóru 25:18, 25:17 og 25:19.

KA byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og fór gamla „svinghjólið“, Birna Baldursdóttir, hamförum á upphafsmínútunum. HK náði loks að jafna hrinuna í 10:10 og þar skipti mestu frábær varnarleikur. Hvað eftir annað náðu Kópavogskonur að hirða bolta upp úr gólfinu og skila stigum. HK komst yfir en KA náði aftur yfirhöndinni og komst í 17:13. Full mörg mistök hjá HK gerðu KA svo nokkuð auðvelt að klára hrinuna en henni lauk 25:18.

Heimakonur byrjuðu svo næstu hrinu með látum og komust í 4:0 og 8:2. Matthildur Einarsdóttir fór þá í uppgjöf hjá HK og skilaði strax tveimur ásum. HK jafnaði leikinn fljótlega í 9:9. Í stöðunni 11:11 hrökk allt í baklás hjá HK og röð mistaka kom KA í 18:11. HK átti sér ekki viðreisnar von og KA vann hrinuna 25:17.

Þriðju hrinuna byrjuðu heimakonur af svakalegum móð. HK tók leikhlé í stöðunni 7:1 og móttaka HK var ekki nógu góð. KA fékk ódýr stig og það kveikti í norðankonum. Gleðin einkenndi leik KA og leikmenn létu bara vaða í alla bolta. Munurinn hélst langt fram í hrinuna en Hjördís Eiríksdóttir hélt HK inni í leiknum með öflugum sóknarleik. KA komst í 22:14 og svo 23:16. Flestir í stúkunni voru byrjaðir að kyrja sigursöngva á þessum tíma og allt ætlaði um koll að keyra þegar KA loks skoraði sigurstigið. Það fór val á því að Birna Baldursdóttir ætti lokaskellinn en hún er búin að baksa með KA í áratugi og yfirleitt í neðri hluta deildarinnar.

Kvennalið KA hafði fram til dagsins í dag aldrei áður unnið Íslandsmeistaratitilinn en karlalið félagsins vann sinn fyrsta titil fyrir sléttum 30 árum. Það féllu því mörg tár í KA-heimilinu í dag og er kvennalið KA búið að vinna alla titla vetrarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert