KA er Íslandsmeistari

KA-menn fagna með Íslandsbikarinn á lofti eftir leikinn í kvöld.
KA-menn fagna með Íslandsbikarinn á lofti eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Íslandsbikarinn í blaki karla fór á loft í kvöld eftir oddaleik KA og HK á Akureyri. Hvort lið hafði unnið tvo leiki í einvíginu og tveir síðustu leikir höfðu farið í oddahrinu. Leikurinn í kvöld var æsilegur og fór einnig í oddahrinu eftir að KA hafði unnið hrinur eitt og þrjú en HK hrinur tvö og fjögur. KA vann svo oddahrinuna, einvígið 3:2 og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn.

KA vann þrefalt bæði í karla- og kvennaflokki í vetur og er það einstakt afrek.

HK byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og komst í 1:4 en KA snéri taflinu á augabragði og kom sér í 7:4. Spánverjarnir Stefano Nassini Hidalgo og Miguel Mateo Castrillo voru í fantaformi, jafnt í vörn sem sókn og skiluðu KA í bílstjórasætið. Munurinn varð aldrei mikill og eitraðar uppgjafir HK komu KA-mönnum í alls kyns klandur. Liðin skiptust á að skora nánast til loka og spennan var mikil. KA komst í 21:17 en HK var ekkert að gefa neitt, minnkaði muninn í tvö stig, 21:19 og 23:21. Lengra komust Kópavogspiltar ekki í hrinunni og KA vann 25:21.

Önnur hrinan hófst með uppgjafaklúðri hjá báðum liðum en svo fór allt í gang. Liðin fóru spila sparikerfin og litu margar skemmtilegar sóknarfléttur dagsins ljós. KA komst strax yfir og hélt forskoti langt fram í hrinuna. HK jafnaði loks í 14:14 eftir nokkrar daprar sóknir heimamanna. KA-menn skelltu mörgum boltum út af vellinum og HK-ingar gengu á lagið. HK var komið 18:15 forskot og KA-menn létu allt fara í taugarnar á sér. Heimamenn sprikluðu samt með og úr varð æsilegur endasprettur þar sem áhorfendur supu hveljur hvað eftir annað. HK spilaði af festu og landaði loks 25:22 sigri.

HK hélt yfirhöndinni í leiknum áfram og leiddi þriðju hrinuna lengi vel með Andreas Hilmi Halldórsson  í fantaformi. KA jafnaði í 12:12 og svo í 15:15. Hávörn heimamanna fór í gang og skilaði hún nokkrum stigum. KA tók góða rispu með Stefano í uppgjöfinni og Alexander Arnar Þórisson í hávarnarham og allt í einu var staðan orðin 21:15 fyrir KA. Heimamenn luku svo hrinunni með sturtublokk frá Stefano og lauk hrinunni 25:20.

Nú var að duga eða drepast fyrir Kópavogsliðið. Jafnt var nánast á öllum tölum í fjórðu hrinunni og rafmögnuð spenna í KA-heimilinu. Lúðvík Már Matthíasson, uppspilari og fyrirliði HK, leiddi sína menn og komst HK loks í 15:12. Kristófer Björn Ólason Proppé átti líka beittar sóknir og hávarnir gegn Mateo, sem virtist orðinn þreyttur. HK skilaði smössunum sínum einfaldlega betur og hélt forskoti sínu, komst í 21:18 og í 23:19. Leikhlé KA-manna skiluðu engu og HK sigldi hrinunni í höfn. Fór vel á því að lokastigið þeirra kæmi eftir sturtublokk frá Benedikt Baldri Tryggvasyni. Lauk hrinunni 25:20.

Oddahrinan byrjaði með tveimur KA-stigum en svo fór í gang einn mesti tryllir sem sögur fara af. Þvílík læti og stuð á leikmönnum. Hverju stigi var fagnað eins og um úrslitastig væri að ræða. KA var í góðri stöðu, 9:6 og 11:7 þegar HK tók sín leikhlé. Þrjú stig frá HK breyttu stöðunni í 11:10. Hvert stig var nú gulls ígildi og spennan í leiknum óbærileg. Stefano átti lokaskell KA og tryggði hann norðanmönnum Íslandsmeistaratitilinn í sjötta skipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert