Árni Pétur Norðurlandameistari

Árni Pétur Lund fagnar gullverðlaunum sínum.
Árni Pétur Lund fagnar gullverðlaunum sínum. Ljósmynd/Júdósamband Íslands

Átján íslenskir keppendur tóku þátt á Norðurlandamótinu í júdó í Rovaniemi í Finnlandi um helgina. Bestum árangri náðu þeir Árni Pétur Lund, Daníel Dagur Árnason og Guðmundur Stefán Gunnarsson en þeir unnu samtals fern verðlaun. 

Guðmundur Stefán Gunnarsson stóð sig vel og tók bronsverðlaunin í +100 kg flokki og sigraði einnig örugglega í Veterans flokki 40-49 ára í +100 kg. Daníel Dagur Árnason varð í þriðja sæti í U21 árs -55 kg flokki.

Óhætt er að segja að Árni Pétur Lund hafi verið maður dagsins á laugardaginn. Hann sigraði í sextán manna -81 kg flokki með algjörum yfirburðum. Hann glímdi í heildina aðeins í um það bil tvær mínútur í fjórum viðureignum og náði í sinn fyrsta Norðurlandameistaratitil. Hann keppir á Smáþjóðaleikunum í næstu viku. 

Ingólfur Rögnvaldsson keppti um bronsverðlaunin í U21 árs -66 kg  en varð að játa sig sigraðan eftir hörkuviðureign en aðrir íslenskir keppendur komust ekki á pall. Ísland varð í öðru sæti í liðakeppni á eftir Finnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert