Stórkostlegt met orðið tíu ára

Usain Bolt fagnar á HM í Berlín 2009.
Usain Bolt fagnar á HM í Berlín 2009. AFP

Sléttur áratugur er í dag liðinn frá stórkostlegu heimsmeti spretthlauparans Usain Bolt frá Jamaíka í 200 metra hlaupi en metið setti hann á HM í Berlín árið 2009. 

Bolt hljóp á 19,19 sekúndum og bætti eigið met frá því á Ólympíuleikunum í Peking árið áður. Og þótt ótrúlegt megi virðast fór úrslitahlaupið í 200 metrunum á ÓL í Peking einnig fram 20. ágúst og setti Bolt því tvívegis heimsmet í greininni á þessum degi. 

Bolt er sprettharðasti maður sögunnar, alla vega frá því mælingar hófust, og sló við goðsögninni Michael Johnson sem sett hafði glæsilegt heimsmet á ÓL í Atlanta 1996 þegar hann hljóp á 19,32 sekúndum. 

Bolt er einnig handhafi heimsmetsins í 100 metra hlaupi og var það líka sett á HM í Berlín 2009. Er það ekki síðra en í 200 metrunum en Bolt hljóp á 9,58 sekúndum. 

HM í Berlín fór fram á Ólympíuleikvanginum í Berlín og þótti mörgum viðeigandi að þessi stórbrotna frammistaða í spretthlaupunum skyldi eiga sér stað á sama leikvangi og Jesse Owens stal senunni á ÓL í Berlín 1936. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert