Metin falla í umdeildum undraskóm

Eliud Kipchoge.
Eliud Kipchoge. AFP

„Þessi afrek fá mann til að hugsa aðeins um hvort þessir skór séu virkilega að gefa eitthvert forskot, og margir vilja meina það,“ segir ólympíufarinn Kári Steinn Karlsson um nýleg afrek í maraþonheiminum.

Síðastliðinn laugardag hljóp Eliud Kipchoge frá Keníu heilt maraþon á innan við tveimur klukkustundum, fyrstur manna, og varla var liðinn sólarhringur áður en landa hans, Brigid Kosgei, stórbætti heimsmet kvenna í maraþoni með því að hlaupa á 2:14,04 klukkustundum í Chicago-maraþoninu. Bæði klæddust þau sérstakri tegund Nike Vaporfly-hlaupaskóa sem þykja svo góðir að deilt er um hvort Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, þurfi að setja skýrari reglur um skóbúnað hlaupara.

Skórnir eru gerðir með það að markmiði að minnka þá orku sem hlauparar nota um 4%. Ef satt reynist munar að sjálfsögðu um það. Einn af þeim fyrstu í mark í Chicago-maraþoninu um helgina, Bandaríkjamaðurinn Jake Riley, lét hafa eftir sér að það væri eins og að hlaupa á trampólíni þegar hann hlypi í skónum. Íþróttafræðingurinn Ross Tucker segir að best sé að ímynda sér að í skónum sé sóli sem virki eins og skopparabolti frekar en skvassbolti.

„Ég hef ekki hlaupið í þessum skóm sjálfur en miðað við það sem ég hef kynnt mér eru gríðarleg vísindi á bak við þetta. Á meðan sumir skór drepa allt högg og gefa ekkert til baka þá eru þessir svolítið eins og að hlaupa á einhverjum gormum. Þeir draga í sig höggið en spyrna manni aftur frá jörðinni. Þetta virðist vera alveg ótrúlegt efni,“ segir Kári Steinn og bendir á að jafnvel í 10.000 metra hlaupi á hlaupabraut séu menn farnir að kjósa téða skó í staðinn fyrir sérhannaða gaddaskó eins og hefð var fyrir.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert