Ævintýri með Íslandi hafði vinninginn

Andreas Stefansson í fyrri leiknum gegn Bandaríkjamönnum í Digranesi.
Andreas Stefansson í fyrri leiknum gegn Bandaríkjamönnum í Digranesi. mbl.is/Árni Sæberg

Andreas Stefansson fór mikinn fyrir íslenska karlalandsliðið í bandíi þegar liðið vann tvo sterka sigra gegn Bandaríkjunum í vináttulandsleikjum í Digranesi í Kópavogi um síðustu helgi.

Fyrri leik liðanna á laugardagskvöldið lauk með 7:3-sigri Íslands en síðar leiknum á sunnudaginn lauk með 5:4-sigri íslenska liðsins.

Þetta voru jafnframt fyrstu heimaleikir íslenska landsliðsins frá því að liðið var stofnað sumarið 2015. Andreas skoraði sex mörk í leikjunum eða helming marka íslenska liðsins, ásamt því að leggja upp eitt mark, en hann leikur sem atvinnumaður með sænska úrvalsdeildarliðinu Pixbo í sterkustu deild í heimi.

„Þetta var hrikalega skemmtileg reynsla, að leggja Bandaríkin að velli. Við höfum aldrei verið sterkari að mínu mati en það er enn þá langur vegur fram undan. Bandí er einfaldlega ný íþrótt á Íslandi og margir landsliðsmenn, sem hafa sem dæmi ekki spilað erlendis, eru enn þá að læra ákveðin grunnatriði. Um 30% leikmanna liðsins leika erlendis og landsliðshópurinn hittist þess vegna ekki oft til þess að æfa og spila saman.

Það er staðreynd að við erum mjög langt á eftir fremstu liðum heims sem eru Svíþjóð, Finnland og Rússland. Við hittumst ekki nema tvisvar til þrisvar á ári allt liðið þar sem við fáum tækifæri til þess að spila okkur saman. Við höfum tekið þátt í tveimur undankeppnum fyrir HM og hópurinn hefur ekki breyst mikið á milli ára sem er jákvætt. Það er líka frábært að sjá hvað allir leikmenn íslenska landsliðsins halda alltaf áfram að bæta sig með hverjum mánuðinum sem líður og þetta er allt á réttri leið hjá okkur,“ sagði Andeas við Morgunblaðið.

Sjá allt viðtalið við Andreas á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert