Kolbrún og Róbert best á árinu

Kolbrún María Garðarsdóttir með Íslandsbikarinn.
Kolbrún María Garðarsdóttir með Íslandsbikarinn. Ljósmynd/ÍHÍ

Róbert Freyr Pálsson úr Fjölni/Birninum og Kolbrún María Garðarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar hafa verið valin íshokkímaður og íshokkíkona ársins 2019 af stjórn Íshokkísambands Íslands.

Í umsögn um Róbert Frey er sagt á heimasíðu ÍHÍ:

Róbert Freyr hefur leikið með Birninum frá unga aldri og er fyrirliði meistaraflokks Fjölnis/Bjarnarins 2019.

Róbert Freyr vann silfurverðlaun með landsliði Íslands á heimsmeistaramóti Alþjóðaíshokkísambandsins í apríl síðastliðnum, skoraði þar eitt mark og átti tvær stoðsendingar. Hlutverk Róberts með landsliðinu hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og er hann nú fyrirliði landsliðsins sem tekur þátt í undankeppni Ólympíuleikanna 2022.

Róbert Freyr er þekktur fyrir baráttu sína og vinnusemi, hann er frábær liðsfélagi og hefur ætíð verið tilbúinn til að taka þátt í landsliðsverkefnum og er til fyrirmyndar í alla staði.

Íshokkísamband Íslands óskar Róberti Frey innilega til hamingju með árangurinn.

Róbert Freyr Pálsson í landsleik.
Róbert Freyr Pálsson í landsleik.


Í umsögn um Kolbrúnu Maríu er sagt á heimasíðu ÍHÍ:

Kolbrún María hefur frá unga aldri leikið með Skautafélagi Akureyrar og varð Íslandsmeistari með liðinu 2019 þar sem hún var næststigahæsti leikmaður deildarinnar með 27 stig í 10 leikjum. Kolbrún vann bronsverðlaun með íslenska kvennalandsliðinu á heimsmeistaramóti Alþjóðaíshokkísambandsins í apríl síðastliðnum þar sem hún skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar. Kolbrún María var valin besti leikmaður íslenska landsliðsins á mótinu.

Kolbrún María Garðarsdóttir er vel að þessu komin enda frábær leikmaður í alla staði, öflugur liðsfélagi, frábær fyrirmynd og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma.

Íshokkísamband Íslands óskar Kolbrúnu Maríu innilega til hamingju með árangurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert