Sex mótsmet féllu í Kaplakrika

Fyrri dagur Meistaramóts Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum fór fram í Kaplakrika í dag. Sex mótsmet féllu á þessum fyrri degi og bættu fjölmargir sín persónulegu met. Heildarstigakeppnina leiðir ÍR með 225,5 stig, Breiðablik er í öðru sæti með 157,5 stig og HSK/Selfoss í því þriðja með 140,5 stig. Flest gullverðlaun hafa farið til ÍR-inga eða þrettán talsins.

Í 60 metra hlaupi pilta 16-17 ára sigraði Birnir Vagn Finnsson, UFA. Hann kom í mark á 7,18 sekúndum, sem er nýtt mótsmet og persónulegt met. Birnir var ekki sá eini sem bætti sig í þessu hlaupi því sex af átta keppendum sem kepptu til úrslita bættu sín persónulegu met.

Tvö önnur mótsmet komu í 60 metra hlaupi í dag og því þrjú í heildina. Ólíver Máni Samúelsson, Ármanni, kom fyrstur í mark á nýju mótsmeti í flokki pilta 18-19 ára. Tími Ólívers í hlaupinu var 7,08 sekúndur og var það bæting. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í 60 metra hlaupi stúlkna 18-19 ára á 7,50 sekúndum. Íslandsmet Guðbjargar Jónu og Tiönu Óskar Whitworth í greininni er 7,47 sekúndur og Guðbjörg því alveg við sinn besta tíma.

Í hástökki stúlkna 16-17 ára stökk Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfossi, hæst allra keppenda þegar hún fór yfir 1,72 metra. Það er nýtt mótsmet hjá Evu Maríu. Í hástökki pilta 16-17 ára sigraði Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, með stökk upp á 2,08 metra sem er mótsmet. Kristján Viggó reyndi í kjölfarið við 2,15 metra en rétt svo felldi þá hæð. Kristján bætti aldursflokkametið í greininni síðastliðna helgi þegar hann stökk yfir 2,13 metra.

Í 300 metra hlaupi 15 ára stúlkna kom Dóra Fríða Orradóttir, ÍR, fyrst í mark á 43,33 sekúndum. Það er nýtt mótsmet og persónulegt met hjá Dóru Fríðu.

Hér má sjá öll úrslit fyrri dags á Meistaramóti Íslands 15-22 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert