„Bjóst ekkert við dynjandi lófataki“

Nýtt merki KSÍ.
Nýtt merki KSÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var ekki gert á einni nóttu, eins og sum­ir héldu,“ segir Stefán Sveinn Gunnarsson, sviðsstjóri markaðssviðs hjá KSÍ, um nýtt umdeilt merki sambandsins sem var afhjúpað í síðustu viku.

Talað var um merki sambandsins en landsliðin munu vera með sérstakt merki sem kynnt verður í vor. Óhætt er að segja að viðbrögð landans hafi ekki verið neitt sérstök en Stefán segir að Knattspyrnusambandið hafi unnið að verkefninu í tæpt ár. Í því ferli var ákveðið að fara leið sem margar þjóðir fara; að hafa eitt merki fyrir sambandið og annað fyrir landsliðin.

„Við leituðum fanga víða en í þeim tilvikum þar sem sambönd eru með sérstaka útgáfu fyrir treyjurnar hafa sumar þjóðir verið með svokallað systramerki, eins og Svíþjóð og England, á meðan önnur, eins og Japan og Þýskaland, hafa farið þá leið að hafa landsliðsmerkin algjörlega ólík merki sambandsins. Við förum síðarnefndu leiðina,“ segir Stefán og bætir við að það merki sé tilbúið:

„Landsliðsmerkið er tilbúið og það verður kynnt eftir umspilið. Þá ætla ég að poppa og kíkja á Twitter,“ segir Stefán. Hann segist að vissu leyti hafa búist við neikvæðum viðbrögðum en segir að margir hafi ef til vill verið með óraunhæfar væntingar.

Merkið má sjá hér uppi í horninu vinstra megin á …
Merkið má sjá hér uppi í horninu vinstra megin á þinggerð og afreksstefnu. Ljósmynd/KSÍ

Við erum að birta staðlað mynd­merki, K, S og Í, og það er í fána­lit­un­um. Ég held að sum­ir hafi bú­ist við of miklu og því varð fólk fyrir vonbrigðum,“ segir Stefán og bætir við að einhverjir hafi kallað eftir gamla merki KSÍ. Það hafi verið hætt með það á sínum tíma vegna þess að það þótti ekki nógu skýrt.

„Maður bjóst ekkert við dynjandi lófataki. Við erum hins vegar rosa­lega ánægð með þetta og vær­um ann­ars ekk­ert að senda þetta frá okk­ur.“

Gamla merkið.
Gamla merkið.

Stefán bætir því við að merkið sem nú er á landsliðbúningunum sé orðið yfir 20 ára gamalt og það sé „ótrúlegur aldur í vörumerkjum“. Erfitt sé að vinna með það í stafrænu efni og tími hafi verið kominn á uppfærslu.

Stefán segir að búningamál og merki landsliðsins skýrist væntanlega eftir umspil karlalandsliðsins um sæti á Evrópumótinu í sumar. Hann kveðst ekkert geta sagt til um hvaða búningaframleiðandi tekur við af hinum ítalska Errea en hávær orðrómur hefur verið uppi um að landsliðin leiki frá og með sumri í merki Puma.

Hér má sjá nýja merkið í notkun.
Hér má sjá nýja merkið í notkun. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert