Erfiður dagur við erfiðar aðstæður

Snorri Einarsson.
Snorri Einarsson. Ljósmynd/Skíðasamband íslands

Skíðamaðurinn Snorri Einarsson lauk keppni á Ski Tour-mótaröðinni í gær þegar keppt var í 30 km eltigöngu með hefðbundinni aðferð. Keppnin fór fram í Þrándheimi í Noregi en nokkuð erfiðar aðstæður voru á mótsstað. Hitastigið var í kringum frostmark með snjókomu sem gerði smurningsmönnum mjög erfitt fyrir að græja skíðin fyrir keppendur.

Snorri átti því miður ekki góðan dag þar sem smurning á skíðunum var ekki nógu góð. Erfiðlega gekk að fá grip og sömu sögu er hægt að segja um rennslið. Fyrir keppni dagsins var Snorri í 22. sæti í heildarkeppni Ski Tour-mótaraðarinnar en endaði að lokum í 38. sæti. 

Snorri tekur næst þátt í heimsbikarmótaröðinni þegar keppt verður í 50 km göngu með hefðbundinni aðferð í Ósló í Noregi. Sú keppni fer fram sunnudaginn 8. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert