„Ég er enginn villingur“

Frá leiknum gegn Tyrklandi í kvöld.
Frá leiknum gegn Tyrklandi í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þeir gera það ekki endasleppt ungu leikmennirnir í kvennalandsliðinu í íshokkí. Lið Íslands leikur nú í 2. deild B á HM á Akureyri og í kvöld vann Ísland 6:0 sigur á Tyrkjum. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði þrjú mörk í leiknum en hin 15 ára Hilma Bóel Bergsdóttir skoraði þriðja mark leiksins og var það hennar fyrsta mark fyrir A-landsliðið. Í síðasta leik skoraði Saga Blöndal sitt fyrsta mark en hún er 16 ára.

Hilma Bóel var fengin í stutt spjall eftir leik en gaman er að geta þess að 17 ára systir hennar, Aldís Kara, er skautakona ársins 2019 og margfaldur meistari í listdansi.

Sæl Hilma. Þú ert í hokkíinu en systir þín í listdansi. Byrjaðir þú kannski líka þar?

„Já ég byrjaði í listdansi. Ég man svo að eftir nokkrar æfingar, ekki margar, þá fór ég heim og sagði við mömmu og pabba að ég ætlaði að hætta í þessu og byrja í íshokkí eins og Guðrún Blöndal.“

Af hverju Guðrún Blöndal?

„Hún var algjör fyrirmynd, var bara eins og önnur mamma mín. Hún var nágranni okkar og börnin hennar eru mínir æskuvinir.

En Aldís systir þín. Fór hún aldrei í íshokkí?

„Nei hún hefur ekkert prófað það. Hún er að standa sig vel í sínu.“

Nú veit ég að hún er mjög róleg og hæversk. Ert þú þá villingurinn í fjölskyldunni?

„Ne-hei“ segir Hilma og skellir upp úr. „Ég er enginn villingur. Ég er bara mjög góð.“

Nú varst þú að skora fyrsta landsliðsmarkið þitt og ert þá væntanlega með pökkinn einhvers staðar.

„Já ég er með hann í hendinni. Hann er hérna,“ segir Hilma og sýnir pökkinn.

Hvernig finnst þér svo að vera að spila í þessu liði?

„Mér finnst það mjög gaman. Það er æðislegt að spila með þessum stelpum. Þær eru frábærar og ég er mjög stolt að vera með þeim í liði.“

Þær eru nokkrar eldri í liðinu, m.a. einhverjir af gömlu þjálfurunum þínum. Er ekki smá fúlt að átrúnaðargoðið, Guðrún Blöndal, skuli vera hætt?

„Nei. Hún er alltaf öskrandi á okkur uppi í stúku. Hún er því alltaf hjá okkur.

Nú voru tveir liðsfélagar þínir, þær Anna Sonja Ágústsdóttir og Flosrún Vaka Jóhannesdóttir, báðar að spila sinn 50. landsleik í kvöld. Ert þú með einhver markmið varðandi landsliðið?

„Mig langar að vera í liðinu þangað til ég get ekki meir. Ég ætla mér að halda áfram, kannski 20 ár í viðbót,“ sagði brosmild skottan að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert