Verður Ólympíuleikunum aflýst?

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýó á að fara fram þann 24. …
Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýó á að fara fram þann 24. júlí næstkomandi. AFP

Undirbúningur fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í Japan sem eiga að fara fram næsta sumar eru á áætlun samkvæmt Dick Pound sem situr í alþjóða ólympíunefndinni. Mörgum íþróttaviðburðum hefur verið aflýst að undanförnu vegna kórónuveirunnar sem á upptök sín að rekja til Wuhan-héraðisins í Kína en alls hafa 156 manns greinst með veiruna í Japan.

„Eins og staðan er í dag verða íþróttamenn heimsins í Tókýó næsta sumar,“ sagði Pound í samtali við BBC. Japanir hafa nú þegar aflýst öllum knattspyrnuleikjum í efstu deild Japans fram í mars og þá verður Tókýó-maraþonið, sem fram fer í byrjun mars, eingöngu fyrir afrekshlaupara í greininni.

Pound segir að enginn ákvörðun um framtíð leikanna verði tekin fyrr en í fyrsta lagi tveimur mánuðum fyrir setningu leikanna sem hefjast þann 24. júlí. „Það getur ýmislegt gerst á nokkrum mánuðum og við munum því bíða og sjá hvað gerist í náinni framtíð. Þegar allt kemur til alls snýst þetta um það hvort við getum stjórnað aðstæðum og um öryggi keppenda,“ bætti Pound við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert