Liðsheildin var númer eitt

Sunna Björgvinsdóttir skorar annað mark Íslands í leiknum í kvöld.
Sunna Björgvinsdóttir skorar annað mark Íslands í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ísland vann Króatíu 7:0 í kvöld á HM í íshokkí kvenna á Akureyri en í gær vann Ísland Tyrkland 6:0.

Jón Benedikt Gíslason, þjálfari liðsins, gat ekki annað en verið sáttur með uppskeruna í þessum leikjum en í viðtali um daginn sá hann fram á snúna leiki sem þó ættu að vinnast ef Ísland næði að spila sinn leik. Það gekk eftir.

„Leikurinn í gær á móti Tyrklandi gat orðið mjög erfiður. Þær hafa sýnt það á þessu móti að þær eru sterkar. Leikurinn í kvöld var ekki jafn hættulegur en við gátum þó ekkert slakað á. Við lögðum upp með það að æfa ákveðin atriði og mesta áherslan var á að halda pökknum, búa til spil og opna andstæðinginn. Okkur fannst það takast ágætlega.“

Fyrsti leikhlutinn var ekki jafn góður og hinir. Pökkurinn fór hægt á milli manna og Króatar náðu að verjast vel og koma pökknum margoft burt af hættusvæðinu. Það vantaði meiri brodd í sóknirnar en þetta lagaðist mikið í seinni tveimur leikhlutunum.

„Þetta passar. Okkar leikmenn voru að æfa sig í ákveðnum hlutum sem þær höfðu ekki verið að gera nógu vel áður. Þær voru mjög einbeittar í þessu tiltekna verkefni og því lítill slagkraftur í sóknunum. Þær voru að hugsa hlutina og vanda sig. Eftir fyrsta leikhlutann fórum við bara yfir þetta og hættum að hugsa hlutina og þá fór allt að ganga miklu betur.“

Var ekki ánægjulegt að sjá sjö markaskorara og sjö aðra leikmenn á blaði með stoðsendingar?

„Jú vissulega. Þetta segir allt um óeigingirnina í liðinu í leik sem þessum. Flestir leikmennirnir okkar voru með nokkur skot á markið, þannig að pökkurinn var að fara á þá sem voru í besta færinu hverju sinni og menn voru ekkert að hanga á pökknum.“

Jón Benedikt Gíslason fylgist með sínu liði í leiknum í …
Jón Benedikt Gíslason fylgist með sínu liði í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ég er nú ekki með nákvæma tölfræði yfir skot að marki en þætti ekki ólíkleg að þau væru í kringum 100 í leiknum. Samkvæmt tölfræði leiksins fóru 65 skot á rammann. Þetta segir sína sögu um yfirburði liðsins.

„Já og við fengum bara fimm skot á okkar mark. Það er ánægjulegt að sjá slíkar tölur. Þótt við höfum verið í sókn nánast allan leikinn þá fórum við strax að spila vörn þegar við misstum pökkinn og unnum hann oft áður en nokkur hætta skapaðist upp við okkar mark.“

Karitas Halldórsdóttir ver skot frá Evu Cavka í leiknum í …
Karitas Halldórsdóttir ver skot frá Evu Cavka í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Og Karítas í markinu var alltaf klár þegar á þurfti að halda. Hún var nú bara áhorfandi á löngum köflum.

„Við erum með góða markmenn og þeir eru klárir þegar skotin koma loksins.“

Lokaleikurinn gegn Úkraínu er á laugardaginn. Það er klárt að Ísland vinnur ekki riðilinn en lendir í 2. eða 3. sæti. Þið ætlið að vinna Úkraínu, þykist ég vita, en það mun ekki duga í 2. sætið ef Nýja-Sjáland vinnur Ástrala í sínum lokaleik.

„Já við verðum bara að treysta því að Nýja-Sjáland vinni ekki sinn leik í venjulegum leiktíma. Þá munum við tryggja okkur 2. sætið með því að vinna Úkraínu. Mótið hefur spilast þannig að þetta er staðan.“

Silvía Björgvinsdóttir skýtur að marki í kvöld en hún er …
Silvía Björgvinsdóttir skýtur að marki í kvöld en hún er í hópi stigahæstu leikmanna mótsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Silvía Rán Björgvinsdóttir er þriðji stigahæsti leikmaður mótsins sem stendur. Hún er með níu stig fyrir sex mörk og þrjár stoðsendingar, tveimur stigum á eftir Ástralanum Michelle Clark-Crumpton. Munuð þið leggja upp með að koma henni í efsta sætið á stigalistanum, ef lokaleikurinn býður upp á slíkt?

„Nei, ég stórefa það. Liðið og liðsheildin er númer eitt og svona einstaklingsverðlaun eru aukaatriði. Hins vegar ef hún stendur sig vel í næsta leik þá gæti hún alveg náð þessum titli,“ sagði Jón Benedikt en jafnframt vonaðist hann eftir fullu húsi áhorfenda og rífandi stemningu á laugardaginn kl. 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert