Lofuðu þeir ólympíusætum upp í ermina á sér?

Ólympíuleikarnir 2020 fara fram sumarið 2021 í Tókýó, sem og …
Ólympíuleikarnir 2020 fara fram sumarið 2021 í Tókýó, sem og ÓIympíumót fatlaðra, Paralympics. AFP

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, tilkynnti á dögunum, eftir að Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað til sumarsins 2021, að meirihluti íþróttafólks sem hefði tryggt sér sæti á leikunum á þessu ári myndi halda keppnisréttinum.

Margir draga hins vegar í efa að IOC muni geta staðið við þetta loforð þar sem nefndin hafi einfaldlega ekki heimild til þess og ákvörðunin geti þýtt að margir muni leita réttar síns fyrir dómstólum.

Fréttastofa Reuters fjallar um málið þar sem leitað var til ýmissa ólympíunefnda og sérsambanda eftir viðbrögðum.

„Hver þjóð (viðkomandi sérsamband) hefur rétt til að tilnefna sína keppendur samkvæmt eigin fyrirkomulagi, svo framarlega sem íþróttafólkið hefur náð tilskildum lágmörkum,“ sagði bandaríska frjálsíþróttasambandið í svari til Reuters og fleiri aðilar tóku í svipaðan streng.

Howard Jacobs, lögfræðingur sem hefur haft marga íþróttamenn sem skjólstæðinga, sagði að ákvörðun IOC gæti átt eftir að þýða margar málsóknir. „Tökum sem dæmi bandarískan maraþonhlaupara sem náði lágmarkinu í febrúar en nær því ekki í þeim glugga sem settur er upp fyrir leikana 2021. Hann gæti verið úr leik, en gæti aftur á móti kært niðurstöðuna til Alþjóðaíþróttadómstólsins, CAS,“ sagði Jacobs við Reuters.

Alþjóðagolfsambandið er tekið sem dæmi en þar ræður staða á heimslista því hverjir eiga að fara á Ólympíuleikana. Þar gætu nú komið upp deilur um hvort núgildandi listi eigi að ráða, eða heimslistinn eins og hann verður vorið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert