Framlengir ferilinn til að ná Ólympíuleikunum

Lászlo Cseh er afar sigursæll sundmaður.
Lászlo Cseh er afar sigursæll sundmaður. AFP

Einn af bestu sundmönnum Evrópu á þessari öld, Ungverjinn Lászlo Cseh, hefur ákveðið að framlengja ferilinn um eitt ár til þess að geta keppt á sínum fimmtu Ólympíuleikum sumarið 2021 í Tókýó.

Cseh hefur fengið fern silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á Ólympíuleikum en sá sem kom í veg fyrir að hann ynni til gullverðlauna var Bandaríkjamaðurinn ósigrandi Michael Phelps. Cseh setti m.a. þrjú Evrópumet á leikunum í Peking 2008 en varð alltaf annar á eftir Phelps sem setti heimsmet í sömu greinum og hirti gullverðlaunin.

„Ég hélt að árið 2020 yrði mitt kveðjuár með Ólympíuleikunum, en síðan fór allt á hvolf og farsóttin reyndist sterkari. Ólympíuleikarnir eru stóra takmarkið en ég veit ekki hvaða keppnir fara fram áður en að þeim kemur eða hvenær lífið eins og við þekkjum það hefst á ný. Ég mun reyna að gera allt sem þarf á þessu aukaári. Ég held að ég geti það en  við skulum fyrst losna við þessa veiru,“ sagði Cseh við fréttastofu Reuters þar sem hann situr í sóttkví á heimili sínu í nágrenni Búdapest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert