Oft var þörf en nú er nauðsyn

Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs, í baráttunni á Extra-vellinum …
Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs, í baráttunni á Extra-vellinum í Grafarvogi í leik Fjölnis og Þórs í 1. deildinni á síðustu leiktíð. mbl.is//Hari

Íslensk íþróttafélög eiga í fjárhagsörðugleikum þessa dagana vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina og er Þór frá Akureyri engin undantekning þar á. Félagið birti fréttatilkynningu á heimasíðu sinni í dag þar sem kemur fram að leikmenn, þjálfarar og starfsmenn innan félagsins þurfi að taka á sig launalækkun vegna ástandsins sem myndast hefur.

„Þetta er strax farið að hitta okkur illa því að við náðum ekki að halda stór mót sem áttu að vera í mars og óvíst hvort eða hvenær hægt er að halda þessi mót,“ sagði Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, í samtali við heimasíðu félagsins. „Það yrði mjög mikið högg ofan í það að fyrirtæki haldi eðlilega að sér höndum í styrktarmálum,“ bætti hann við.

„Við sjáum ekki hvað höggið verður mikið fyrr en við sjáum hvað þetta ástand varir lengi og hvenær við komumst af stað inn í sumarið. Það verður ekki komist hjá því að taka upp samninga sem knattspyrnudeildin hefur verið að gera fyrir komandi tímabil og ég held að allir átti sig á stöðunni; geri sér grein fyrir því að það verða allir að koma að borðinu og leggja sitt af mörkum.“

„En það er ekki bara leikmenn og starfsmenn sem þurfa að gefa eitthvað eftir, við þurfum öll sem félag að standa upp og berjast fyrir félagið okkar og leggja eitthvað af mörkum. Við munum reyna að halda öllum vel upplýstum þegar við vitum meira um hve skaðinn verður mikill. Oft hefur verið þörf að standa saman en nú er nauðsyn á samstilltu átaki. Áfram Þór!“ sagði Reimar Helgason að lokum í samtali við heimasíðu Þórs.

Fréttatilkynningu Þórsara má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert