Leikstjórnendur á vergangi

Jameis Winston leikstjórnandi þarf að víkja fyrir Tom Brady hjá …
Jameis Winston leikstjórnandi þarf að víkja fyrir Tom Brady hjá Tampa Bay Buccaneers og nú er óvíst hvert hann fer. AFP

Sjaldan hafa verið jafn miklar vendingar meðal leikstjórnenda á leikmannamarkaði NFL-deildarinnar og í vor og er fjörið ekki úti enn. Reynsluboltar á við Tom Brady og Philip Rivers hafa ákveðið að söðla um á meðan yngri menn hafa ekki í nein hús að venda. Spennandi er að sjá hvað gerist í framhaldinu en áhrif kórónuveirunnar láta sig ekki vanta.

Betri sjón dugar ekki

Jameis Winston, leikstjórnandi í NFL-deildinni sem leikið hefur fyrir Tampa Bay Buccaneers allan sinn fimm ára feril, kastaði fyrir flestum jördum og næstflestum snertimörkum allra í deildinni á síðasta tímabili. Þrátt fyrir það er hann samningslaus og ólíklegt verður að teljast að hann verði byrjunarliðsmaður í nokkru liði þegar flautað verður til leiks í deildinni í haust. Er þetta heldur óvenjuleg staða enda hefur enginn leikstjórnandi svo mikið sem skipt um lið eftir að hafa kastað fyrir flestum jördum á tímabili síðustu 50 árin hið minnsta.

En þrátt fyrir árangurinn í fyrra var hann einstaklega misheppinn, kastaði boltanum 30 sinnum í hendur andstæðinganna, oftast allra í deildinni, auk þess að missa hann í fimm sinnum í hendur andstæðinganna, oftast allra leikstjórnenda. Til að setja málið í samhengi kastaði Lamar Jackson þrisvar oftar fyrir snertimarki en Winston á síðasta tímabili en aðeins 6 sinnum í hendur andstæðinganna, fimm sinnum sjaldnar en Winston.

Winston tekur því mikla áhættu í hvert sinn sem hann kastar boltanum frá sér og virðist oft taka einfaldlega heimskulegar ákvarðanir. Í fyrsta kasti framlengingar síðasta leiks síðasta tímabils kastaði Winston boltanum beint í hendur varnarmanns Atlanta Falcons sem átti ekki í neinum vandræðum með að hlaupa með boltann í endamark Bucs. Var leiknum þar með lokið.

Setti þetta punktinn yfir I-ið fyrir þjálfara og stjórnendur Bucs en það var líkt og Winston sæi ekki varnarmanninn hlaupa inn í sendinguna og það ekki í fyrsta sinn. Það gladdi því netverja mikið þegar tilkynnt var að Winston hefði farið í LASIK-aðgerð eftir tímabilið til að laga í sér sjónina og grínuðust margir með að nú yrði hann óstöðvandi þar sem hann gæti loks séð varnarmennina. Ekki var aðgerðin nóg til að fá Bucs-menn til að bjóða honum nýjan samning, þeir sömdu frekar við Tom Brady og þarf Winston því að sætta sig við að berjast um leiktíma annars staðar.

Carolina Panthers lætur leikstjórnandann Cam Newton fara.
Carolina Panthers lætur leikstjórnandann Cam Newton fara. AFP


Kemst ekki í læknisskoðun

Winston er þó langt því frá eini NFL-leikmaðurinn sem mun spila með nýju liði á nýju tímabili en nóg hefur verið að gera á leikmannamarkaði deildarinnar síðustu daga og vikur. Sérstaklega hafa leikstjórnendur verið iðnir við kolann og nokkrir skrifað undir hjá nýjum liðum eða enn að leita sér að liði. Langt er síðan svo margir leikstjórnendur hafa fært sig um set sem gerir leikmannagluggann í ár einkar áhugaverðan.

Fyrstan má nefna Cam Newton sem valinn var verðmætasti leikmaður deildarinnar tímabilið 2015-16 og virtist ósnertanlegur á þeim tíma. Hann er ekki nema 30 ára gamall, sem telst ekki mikið meðal leikstjórnenda, en glæfralegur leikstíll hefur sett mikið álag á líkama hans og Newton því verið þakinn meiðslum síðustu tvö tímabil. Svo þakinn að lið hans, Carolina Panthers, tókst ekki að skipta honum til annars liðs og létu hann því fara. Gáfu Panthers raunar út að liðið leyfði honum að vera í skiptum en Newton var fljótur til svara á samfélagsmiðlum, sagðist ekkert vilja vera í  skiptum og Panthers væru að reyna að láta líta út fyrir að hann vildi fara.

Newton segist vera orðinn heill heilsu og ef rétt reynist gæti hann reynst varnarmönnum óþægur ljár í þúfu á næsta tímabili. Það verður þó hægara sagt en gert fyrir hann að finna sér lið en vegna kórónuveirunnar er læknum NFL-liðanna er nú óheimilt að gera læknisskoðanir á leikmönnum. Þurfa lið því að treysta skýrslum annarra lækna um heilsu Newton ætli þau að tryggja sér krafta hans. Hægara sagt en gert þegar margar milljónir bandaríkjadala eru í húfi.

Þetta gæti fælt frá lið eins og New England Patriots sem misstu eins og allir vita leikstjórnanda sinn til 20 ára, Tom Brady, á dögunum. Líklegt verður að teljast að Bill Belichick, þjálfari liðsins, hafi áhuga á því að semja við Newton, sé hann ekki meiddur. Þó er ólíklegt að liðið vilji taka áhættuna og semja við kappann án þess að sjá hann á æfingu og fá lækna sína til að skoða hann. Newton gæti því þurft að bíða þar til faraldurinn sem nú fer um heiminn koðni niður áður en hann skrifar undir samning, þ.e. sé hann raunverulega heill heilsu og ætlar sér að fá það kaup sem maður með hans hæfileika á skilið. Líklega skrifar hann þó undir eins árs samning við eitthvert lið og getur þá fengið betri samning á næsta ári sýni hann að hann hafi engu gleymt í vetur.

Hvað sem því líður gerðu Panthers samning við Teddy Brigdewater um að leika fyrir liðið næstu þrjú árin. Bridgewater þessi gerði garðinn frægan hjá Minnesota Vikings áður en hann varð fyrir þrálátum hnémeiðslum og spilaði ekkert um tveggja ára skeið. Þá sat hann á bekknum hjá New Orleans Saint tvö síðustu tímabil en sýndi að hann hefur margt fram að færa þegar hann leysti Drew Brees af hólmi vegna meiðsla í fyrra. Fær hann nú tækifæri sem byrjunarliðsmaður á ný hjá Panthers.

Philip Rivers er kominn til Indianapolis Colts.
Philip Rivers er kominn til Indianapolis Colts. AFP


Látinn víkja fyrir yfirvararskeggi

Philip Rivers skrifaði undir eins árs samning við Indianapolis Colts á dögunum en hinn 38 ára gamli leikstjórnandi hafði til þessa verið í herbúðum Los Angeles Chargers allan sinn feril (liðið færði sig frá San Diego 2017). Colts eru með nokkuð sterkt lið en áttu erfitt uppdráttar í fyrra eftir að stjörnuleikstjórnandi þeirra, Andrew Luck, lagði skóna á hilluna hér um bil korteri fyrir mót. Fannst Colts-mönnum að Jacoby Brissett ætti frekar heima á bekknum en vellinum eftir frammistöðuna á síðasta tímabili þegar hann tók óvænt við keflinu af Luck. Brissett er þrátt fyrir það talinn með betri varaleikstjórnendum deildarinnar.

Colts-menn vonast til þess að Rivers spili jafn vel og hann gerði tímabilið 2018-19 þegar hann var með þeim bestu í deildinni. Á síðasta tímabili dalaði hann nokkuð og kastaði bæði fyrir færri snertimörkum og oftar í hendur andstæðingsins en oftast áður á ferlinum. Colts eru því að taka áhættu en leikstjórnendur á aldur við Rivers dala oft mikið á skömmum tíma, falla fram af bjargi eins og oft er sagt. Áhættan er þó takmörkuð enda samningurinn aðeins til eins árs.

Nick Foles með Vince Lombardi bikarinn árið 2018.
Nick Foles með Vince Lombardi bikarinn árið 2018. AFP

Þá var verðmætasta leikmanni Ofurskálarinnar árið 2018, Nick Foles, skipt frá Jacksonville Jaguars til Chicago Bears fyrir valrétt í fjórðu umferð nýliðavalsins. Foles náði sér ekki á strik þetta eina ár sem hann dvaldi í herbúðum Jaguars sem virðast ætla að veðja á hinn unga og vinsæla leikstjórnanda Gardner Minshew. Sá heillaði netverja með áhugaverðu fatavali og óaðfinnanlegu yfirvararskeggi þegar hann leysti Foles af vegna meiðsla í byrjun síðasta tímabils. Það þarf þó ekki að þýða að Jaguars-menn telji Minshew betri leikstjórnanda en Foles þar sem mun hagstæðara er fyrir liðið að halda Minshew á þeim lágu launum sem nýir leikmenn í deildinni fá samanborið við himinhá laun hins reynslumikla Foles.

Fleiri spurningarmerki eru á lofti á leikmannamarkaðnum er varðar leikstjórnendur en áðurnefnt lið Chargers mun líklega gera samning við liðaflakkarann Tyrod Taylor um að leika með liðinu á næsta tímabili auk þess að velja leikstjórnanda í nýliðavalinu í apríl. Hefur Cam Newton einnig verið nefndur í því tilfelli.

Gera þessar vendingar næsta tímabil spennandi enda leikstjórnendastaðan líklega sú mikilvægasta á vellinum þó líklega ekki eins mikilvæg og margur heldur enda lið unnið titla með lélega leikstjórnendur við stjórnvölinn. Andlit liðsins er þó ávallt leikstjórnandans og nýr maður í brúnni þýðir að ásýnd liðsins breytist mjög og gaman fyrir ruðningsunnendur að sjá fyrir sér hvernig lið þeirra eða andstæðinganna muni líta út á næsta tímabili, og enn frekar í því ástandi sem nú varir í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert