Stefnir ótrauður á Ólympíuleikana

Mo Farah með verðlaun sín á ÓL í Ríó.
Mo Farah með verðlaun sín á ÓL í Ríó. AFP

Mo Farah, einn besti langhlaupari sögunnar, stefnir ótrauður að því að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó, þrátt fyrir að leikunum hafi verið frestað um eitt ár. Þetta staðfesti hann við talkSport.

Farah, sem er 37 ára, ætlar sér að vera með á leikunum á næsta ári. Bretinn varð ólympíumeistari í 5.000 og 10.000 metra hlaupum í London 2012 og Ríó 2016. Þá er hann sexfaldur heimsmeistari. 

Farah hætti að hlaupa á braut eftir HM 2017 í London og sneri sér að lengri götuhlaupum. Var þá fátt sem benti til þess að hann myndi keppa á braut í Tókýó. Honum snerist hins vegar hugur og ætlar að freista þess að verja ólympíutitilinn í 10.000 metra hlaupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert