Ingvar og Ágústa komu fyrst út úr þokunni

A-flokkur karla á ferð í Skagafirðinum í gærkvöldi.
A-flokkur karla á ferð í Skagafirðinum í gærkvöldi. Ljósmynd/Bríet Guðmundsdóttir

Ingvar Ómarsson og Ágústa Edda Björnsdóttir urðu hlutskörpust í öðru bikarmóti ársins í götuhjólreiðum, en það var haldið í gærkvöldi í Skagafirði. Eins og í fyrra, þegar mótið var haldið á sama stað, endaði leiðin á löngu klifri upp á skíðasvæði Tindastóls og þrátt fyrir að bjart hafi verið yfir lengstan hluta leiðarinnar endaði keppnin í þykkri þoku.

María Sæmundsdóttir mótsstjóri segir í samtali við mbl.is að talsvert rok hafi verið á meðan mótið átti sér stað, en hjólaðar voru 124 og 82 km leiðir, mismunandi eftir flokkum. Hún segir að vegna roksins hafi hóparnir haldið sig meira saman, en það eykur möguleika á að hjóla í kjölsogi (e. drafting) og því hafi keppendur talað um að keppnin hafi reynt meira á í fyrra, þrátt fyrir rokið í ár. Keppendur hafi svo fengið að hlýja sér með kjötsúpu eftir keppnina eins og venja er.

Frá Drangeyjarmótinu í gær.
Frá Drangeyjarmótinu í gær. Ljósmynd/Bríet Guðmundsdóttir

Ingvar og Ágústa hafa nú bæði unnið fyrstu tvö mót ársins í A-flokki, en fyrsta mót ársins fór fram á milli Akureyrar og Húsavíkur í síðasta mánuði.   

Ágústa er núverandi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum, en titilinn tók hún einmitt á mótinu í Skagafirði í fyrra. Ingvar, sem er núverandi bikarmeistari, átti hins vegar harma að hefna frá síðasta ári þegar hann missti Íslandsmeistaratitilinn til Birkis Snæs Ingvasonar.

Smá vindur var í Skagafirðinum í gær sem gerði það að verkum að fremsti hópur bæði í kvenna- og karlaflokki hélst meira saman en oft áður. Þannig var ekkert um alvarlegar árásir (þegar einn eða fleiri reyna að stinga af) fram að lokabrekkunni.

Eins og sjá má var talsverð þoka við endamarkið uppi …
Eins og sjá má var talsverð þoka við endamarkið uppi við skíðasvæðið í Tindastóli í gær. Ljósmynd/Bríet Guðmundsdóttir

Í karlaflokki voru enn 11 saman þegar Tindastólsbrekkan hófst, en fljótlega setti Ingvar í fluggírinn og stakk hópinn af. Náði hann fljótt 20 sekúndna forystu, en þeir Eyjólfur Guðgeirsson, Birkir Snær og Hafsteinn Ægir Geirsson reyndu að fylgja og mynduðu næsta hóp. Þeim tókst hins vegar aldrei að brúa bilið í Ingvar og enduðu í fyrrnefndri röð í mark.

Í kvennaflokki voru þær fjórar saman sem komu að lokabrekkunni; Ágústa Edda, Hafdís Sigurðardóttir, Bríet Kristý Gunnarsdóttir og Kristín Edda Sveinsdóttir. Ágústa sýndi hvers megnug hún er í löngu klifri og endaði 1:17 mínútum á undan Hafdísi sem kom önnur. Bríet kom þriðja 19 sekúndum á eftir Hafdísi og Kristín Edda tæplega 40 sekúndunm þar síðar.

Í U19 (e. junior) flokki karla var Matthías Schou-Matthíasson fyrstur, en í U19 kvenna var Bergdís Eva Sveinsdóttir hlutskörpust. Breki Gunnarsson varð fyrstur í U17 flokki karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert