Ég óttaðist um líf mitt

Bianca Williams
Bianca Williams AFP

Breski spretthlauparinn Bianca Williams var stöðvuð af lögreglunni í London og handtekin ásamt kærasta sínum Ricardo dos Santos, sem á portúgalska metið í 400 metra hlaupi, á meðan þriggja mánaða sonur þeirra var látinn bíða í bíl parsins á meðan. 

Williams, sem hefur unnið gull á Samveldisleikum og á Evrópumóti,  segir í samtali við BBC að hún hafi óttast um líf sitt á meðan á handtökunni stóð og sakar hún lögreglumennina um rasisma. 

„Við vorum bara stöðvuð því við erum bæði svört og við vorum á Mercedes. Það er búið að stöðva okkur fimmtán sinnum síðan við skiptum um bíl. Lögreglan heldur að við séum á stolnum bíl, bara því við erum svört og keyrum um á Mercedes,“ sagði Williams við BBC. 

„Ég óttaðist um líf mitt þar sem við vorum dregin úr bílnum og handtekin á meðan sonur okkar var látinn bíða í bílnum. Þetta var hræðileg lífsreynsla,“ bætti Williams við. 

Lögreglan í London hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem hún ver lögreglumennina. „Bílinn var á vitlausum vegarhelming og hafði verið það lengi. Þau virtust svo ætla að stinga af þegar lögreglan gaf þeim merki um að stöðva bílinn. Þá voru rúður bílsins of dökkar,“ segir m.a. í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert