Ber mikla virðingu fyrir Jóni en hef aldrei talað við hann

Hlynur Andrésson á fullri ferð í Hollandi á dögunum.
Hlynur Andrésson á fullri ferð í Hollandi á dögunum. Ljósmynd/Bjorn Parée

Hlynur Andrésson á nú átta Íslandsmet í langhlaupum en hann bætti 37 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar í 3.000 metra hlaupi á móti í Hollandi um helgina. Metin eru fimm í utanhússgreinum og þrjú í innanhússgreinum, og vegalengdinar frá þremur og upp í tíu kílómetra.

Hlynur, sem er 26 ára gamall Eyjamaður, byrjaði að æfa hlaup árið 2012 eftir að hann fór út sem skiptinemi til Bandaríkjanna en hann byrjaði að hlaupa til þess að koma sér í betra form fyrir körfuboltatímabilið. Hlynur býr í dag í Leiden í Hollandi ásamt kærustu sinni en þar hefur hann búið síðan í september 2018.

„Ég er bara ágætlega sáttur með þennan árangur minn,“ sagði Hlynur í samtali við Morgunblaðið í gær. „Ég hef nokkrum sinnum hlaupið hraðar á innanhússmótum í greininni þannig að þetta var kannski ekki beint eitthvað sérstakt þannig séð en að sama skapi hef ég ekki oft fengið tækifæri til þess að bæta metið enda sjaldan keppt í 3.000 metra hlaupi utanhúss.

Það var hlaupið án héra í þessu hlaupi og ég átti þess vegna ekki von á einhverjum stórkostlegum tíma en markmiðið var fyrst og fremst að vinna. Það var svo bara skemmtilegur bónus að bæta þetta Íslandsmet sem hafði staðið ansi lengi. Ég get verið alveg hreinskilinn með það að ég hef aldrei talað við Jón Diðriksson því miður en ég ber að sama skapi gríðarlega mikla virðingu fyrir honum og hans afrekum.

Hann náði frábærum árangri í kringum 1980 en samt sem áður á ekkert Íslandsmet að standa svona lengi og það var löngu kominn tími á að einhver bætti þessi met. Ég á metið í flestum langhlaupsgreinum á Íslandi í dag, nema í hálf- og heilmaraþoni, en það eru hvort tveggja greinar sem ég hef einfaldlega ekki lagt fyrir mig enn sem komið er,“ sagði Hlynur en í fyrra sló hann 36 ára gamalt Íslandsmet Jóns í 10 km götuhlaupi.

Nýtur þess að æfa

Hlynur setti stefnuna á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 sem áttu að fara fram í sumar en leikunum var frestað um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta var sjokk þegar leikunum var frestað, svo við segjum það bara eins og það er. Ólympíuleikunum hafði ekki verið frestað síðan 1944 vegna seinni heimsstyrjaldarinnar og ég átti þess vegna ekki von á frestuninni. Að sama skapi skilur maður vel af hverju það var gert enda öryggi og heilsa keppenda alltaf í fyrsta sæti.

Áður en kórónuveirufaraldurinn skaut upp kollinum hérna í Hollandi var markmið mitt fyrst og fremst að dvelja hér áfram og æfa af fullum krafti fyrir Ólympíuleikana. Plönin hafa því breyst talsvert mikið og ég hef þess vegna einbeitt mér að því að reyna að gera það besta úr stöðunni, hlaupa mikið, og auka hraðann hægt og rólega.

Ég hef aldrei átt í vandræðum með að vakna á morgnana til þess að drífa mig út að hlaupa og þess vegna hafði kórónuveirufaraldurinn lítil áhrif á mig. Ég nýt þess að hlaupa og ef ég geri það ekki á hverjum degi myndast ákveðið tómarúm hjá mér. Ég er þess vegna ekki að pæla of mikið í því hvort það séu einhverjar keppnir á döfinni, þótt það sé vissulega stór hluti af þessu.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert