Vaknaður úr dái eftir svakalegan árekstur (myndskeið)

Ljósmynd sem var tekin andartaki eftir áreksturinn ógurlega.
Ljósmynd sem var tekin andartaki eftir áreksturinn ógurlega. AFP

Hollenski hjólreiðamaðurinn Fabio Jakobsen er kominn úr dái og ekki í lífshættu eftir svakalegan árekstur í keppninni Tour de Poland sem fer fram nú um helgina.

Jakobsen var að berjast um forystuna á endaspretti fyrsta hluta keppninnar þegar keppinauturinn Dylan Groenewegen klessti á hann með agalegum afleiðingum. Hann gekkst undir mikla aðgerð á andliti sem tók fimm klukkustundir og var honum haldið í öndunarvél fyrst um sinn eftir áreksturinn en BBC segir frá.

Liðið hans, Deceuninck-Quickstep, hefur sent frá sér tilkynningu og sagt að þótt líðan Jakobsens sé stöðug eigi hann í vændum langa og stranga endurhæfingu. Groenewegen hefur tímabundið verið leystur frá liði sínu á meðan atvikið er rannsakað. Myndskeið af árekstrinum má sjá hér að neðan en klippan er þó ekki fyrir viðkvæma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert