Ekkert því til fyrirstöðu að klára mótið

Úr leik HK og KR.
Úr leik HK og KR. Kristinn Magnússon

„Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram með mótið. Við Runólfur erum sammála þar þó að ég sé ekki sérfræðingur á þessu sviði,“ segir Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR. Vísar hann í máli sínu til ummæla Runólfs Pálmasonar, yfirmanns á Covid-göngudeild Landspítala. 

Sagði Runólfur að hægt sé að spila knattspyrnu hér á landi gegn því að farið sé eftir ströngum sóttvarnareglum. Jónas segist taka undir ummæli Runólfs. „Það hefur ekkert smit greinst á knattspyrnuvellinum og ekkert hópsmit komið upp. Miðað við þær forsendur er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að spila knattspyrnu.“

Spilað í flestum löndum heimsins

Þórólfur Guðnason, sóttvarnaræknir, greindi frá því í morgun að til skoðunar væri að herða aðgerðir innanlands. Ekkert var gefið upp um í hverju það felst. Jónas segir að ljóst sé að fara verði eftir sóttvarnareglum. Hins vegar eigi þær ekki að koma í veg fyrir knattspyrnuiðkun utandyra. 

„Við höfum þurft að undirgangast ýmislegt til að geta klárað leiki í Evrópukeppni. Ég held að Ísland sé eitt fjögurra ríkja þar sem knattspyrna er ekki leyfð. Alls staðar annars staðar er verið að spila. Það er vilji hjá öllum til að halda áfram. Það er bara spurning hversu liðleg stjórnvöld eru í því að horfa á stöðuna eins og hún er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert