Knattspyrnan geti haldið áfram

Úr leik Breiðabliks og Vals.
Úr leik Breiðabliks og Vals. mbl.is/Íris

„Vissulega er staðan önnur nú en fyrir tveimur vikum er ég tjáði mig um þetta mál. Ef við horfum hins vegar til annarra landa, jafnvel þar sem faraldurinn hefur geisað mjög kröftuglega, hefur tekist að halda ákveðnum samfélagsþáttum gangandi með ströngum reglum. Ég veit til dæmis ekki betur en að það hafi gengið vel að spila knattspyrnu með ströngum reglum,“ segir Runólfur Pálsson, læknir og einn af yfirmönnum Covid-göngudeildar Landspítala. 

Eins og greint var frá í dag mun Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir leggja til hertar aðgerðir sökum útbreiðslu kórónuveirunnar. Aðspurður segist Runólfur taka undir með Þórólfi enda sé nauðsynlegt að herða aðgerðir í ljósi stöðunnar. 

Engar hópsýkingar í knattspyrnu

Segir hann þó að meta verði stöðuna í landinu með hliðsjón af þekkingunni sem nú liggur fyrir. „Það þarf að skoða það auk þess sem horfa verður til reynslunnar af því hvernig aðgerðir hafa tekist til. Sóttvarnir meðal almennings virðast ekki hafa gengið nægilega eftir og því er skiljanlegt að beita þurfi harðari aðgerðum,“ segir Runólfur en tekur fram að þrátt fyrir hertar reglur sé hægt að leyfa ákveðna starfsemi og viðburði.

„Ef horft er til knattspyrnu sem dæmis um þetta, þá finnst mér koma til greina leyfa keppni gegn því að ströngum reglum sé fylgt. Án áhorfenda að sjálfsögðu. Við höfum ekki verið að sjá hópsýkingar koma upp í kringum fótboltann þannig að veit ekki betur en að þar hafi vel tekist til,“ segir Runólfur en tekur fram að sóttvarnarlæknir verði að meta stöðuna um hvernig umrædd sjónarmið horfa við í okkar samfélagi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert